- Advertisement -

Samfylkingin á ekki að vera mótmælahreyfing

Jóhann Páll Jóhannsson:

Kristrún bauð sig fram til formennsku í Samfylkingunni til þess að vinna næstu Alþingiskosningar og taka ábyrgð á stjórn landsins. „Ég mun standa og falla með því,“ segir hún. Þetta er verkefnið: að sameina fólk úr ólíkum áttum um grundvallaratriðin sem skipta máli, mynda nýja ríkisstjórn og ná árangri í þágu fólksins í landinu.

Leiðtogaumræðurnar í Silfrinu hverfðust allar um Samfylkinguna og þær miklu breytingar sem hafa orðið á flokknum og áherslum hans.

Kristrún Frostadóttir talaði um framtíðina en formenn stjórnarflokkanna voru uppteknari af fortíðinni.

Katrín og Bjarni hreyktu sér af auknum kaupmætti á faraldurstímum en minntust ekki á að þá jókst kaupmáttur þrisvar sinnum meira hjá tekjuhæstu 10% landsmanna heldur en hjá öðrum tekjuhópum, að kaupmáttur dróst saman í fyrra og kaupmáttarrýrnunin heldur nú áfram af fullum þunga samhliða harkalegum vaxtahækkunum (og raunar er verðbólguhröðunin meiri á Íslandi en í nokkru öðru OECD-ríki). Sigurður Ingi klappaði sjálfum sér á bakið fyrir að vera loksins að móta stefnu og gera langtímaáætlun í húsnæðismálum – sem er eiginlega lygilegt í ljósi þess að flokkurinn hans hefur farið með húsnæðismál í ríkisstjórn nær óslitið í tíu ár.

Þess vegna er mikilvægt að Alþingi sameinist um það fyrir þinglok…

Þau töluðu líka um hækkun á eignaskerðingarmörkum vaxtabóta sem er einmitt breytingatillaga sem við í Samfylkingunni lögðum fram og fengum samþykkta á Alþingi fyrir áramót og breytir miklu fyrir þúsundir heimila. Sú aðgerð dugar hins vegar skammt nú þegar þrettánda stýrivaxtahækkunin er handan við hornið og æ fleiri eiga erfitt með að ná endum saman. Þess vegna er mikilvægt að Alþingi sameinist um það fyrir þinglok að hækka hámark vaxtabóta sem kæmi tekjulægstu og skuldsettustu heimilunum best.

Hækkun húsnæðisbóta hefur lítið upp á sig án lágmarksverðstýringar á leigumarkaði eins og tíðkast í löndunum í kringum okkur. Þess vegna höfum við í Samfylkingunni talað fyrir því að settar verði takmarkanir á það hversu mikið leigufjárhæð getur hækkað milli ára, hvort sem um er að ræða langtímasamninga eða endurnýjun á skammtímasamningum, með undanþágum þegar sýnt er fram á að leiguverðshækkun eigi sér málefnalegan grundvöll, stafi t.d. af kostnaði vegna nauðsynlegs viðhalds á húsnæði.

Þetta tvennt, lögfesting leigubremsu og hækkun vaxtabóta, eru aðgerðir sem verður að ráðast í áður en Alþingi fer í sumarfrí. Og ef ríkisstjórninni er einhver alvara með rammasamningi um húsnæðismál, sem er stórkostlega vanfjármagnaður í fjármálaáætlun, þá hljótum við að geta klárað núna lagabreytingar sem lengi hefur verið kallað eftir til að koma böndum á lóðabrask og liðka fyrir uppbyggingu hagkvæmra íbúða.

Ég hvet alla til að lesa viðtölin við Kristrúnu Frostadóttur sem birtust í Morgunblaðinu og sænska Aftonbladet um helgina. „Eins og Aftonbladet segir: „Här finns en socialdemokrati som återvänt till rötterna med en stark välfärdspolitik – och gjort exceptionell comeback,“ segir Aftonbladet.

Samfylkingin á ekki að vera mótmælahreyfing heldur sterkur og stjórnandi jafnaðarmannaflokkur eins og systurflokkar okkar á hinum Norðurlöndunum. Kristrún bauð sig fram til formennsku í Samfylkingunni til þess að vinna næstu Alþingiskosningar og taka ábyrgð á stjórn landsins. „Ég mun standa og falla með því,“ segir hún. Þetta er verkefnið: að sameina fólk úr ólíkum áttum um grundvallaratriðin sem skipta máli, mynda nýja ríkisstjórn og ná árangri í þágu fólksins í landinu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: