- Advertisement -

Afgreitt í algjöru myrkri

Rangar upplýsingar, villandi upplýsingar, rangar forsendur og svo að auki var kostnaðaráætlunin sögð vera „augljóslega vitlaus“. „Þrír fulltrúar í meirihlutanum afgreiddu málið óupplýstir.

Teodóra: „Í mjög stuttu máli þá voru þetta vinnubrögð sem við vorum hætt að stunda hér í Kópavogi og þess vegna afgreiddi ég gegn tillögu um að samþykkja tilboð í verkið.“

„…ákvörðun þar sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkur afgreiddu mál í algjöru myrkri. Erindið var útboð á ræstingu í nokkrum skólum í Kóp þar sem vinnubrögðin og útboðsgögn voru vægast sagt ekki góð og nýr formaður bæjarráðs setur á dagskrá og afgreiðir án þess að kynna sér málið og upplýsir ekki nefndarmenn um það sem þarna var í gangi,“ þannig skrifar Theodóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir, bæjaarfulltrúi í Kópavogi, ósátt með hvernig nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks byrjar samstarfið.

Theodóra segir að yfir nítíu athugasemdir hafi verið á útboðsgögnum vegna rangra upplýsinga, villandi upplýsinga, rangra forsendna og að auki þá hafi kostnaðaráætlunin verið sögð „augljóslega vitlaus“ enda lægsta tilboð yfir fjörutíu milljónum yfir kostnaðaráætlun.

„Það er reyndar óvíst því það vissi enginn almennilega hvað var verið að bjóða í. Lægsta tilboðið var 108 milljónir. Það er of langt mál að telja allt upp sem ekki var í lagi. Samtök verslunar og þjónustu tóku hluta af athugasemdum saman og sendu fjórar blaðsíður af athugasemdum til bæjarins. Einhverju var svarað og eitthvað var leiðrétt í ferlinu. Gögnin frá SVÞ voru ekki lögð fram í bæjarráði sem mér finnst alvarlegt, sérstaklega í ljósi þess að bæjarráð var með hlutverk bæjarstjórnar í ellefu vikna sumarleyfi bæjarfulltrúa.“

Theodóra telur að þetta háttarlag meirihlutans í bæjarráði, þar sem Birkir Jón Jónsson er formaður, muni rata í sögubækur.

„Í mjög stuttu máli þá voru þetta vinnubrögð sem við vorum hætt að stunda hér í Kópavogi og þess vegna afgreiddi ég gegn tillögu um að samþykkja tilboð í verkið. Það hefði átt að stoppa þetta ferli og fara betur yfir gögnin enda eru það bæði hagsmunir bæjarins og þeirra sem vilja bjóða í verkin að gögnin séu rétt og skýr. Auk þess átti að koma með rétta og/eða skýra kostnaðaráætlun svo kjörnir fulltrúar geti tekið vel upplýsta ákvörðun og bjóða síðan verkið út að nýju. Þetta er ekki fyrsta svona dæmið hér í Kópavogi.“

Theodóra segir opinber innkaup vera risavaxið hagsmunamál fyrir bæjarsjóð. „Við eigum að sýna fram á ábyrgan og skilvirkan rekstur svo hægt sé að veita framúrskarandi þjónustu, eigum að vanda okkur og reka sveitarfélagið af ráðdeild. Síðan væri smart að vera heiðarlegur og auðmjúkur gagnvart bæði íbúum og viðsemjendum. Fátt af þessu átti við þegar þrír fulltrúar í meirihlutanum afgreiddu málið óupplýstir.“

„Það er reyndar óvíst því það vissi enginn almennilega hvað var verið að bjóða í.
Lægsta tilboðið var 108 milljónir. Það er of langt mál að telja allt upp sem ekki var í lagi.“

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: