- Advertisement -

Alþingi gekk erinda tryggingafélaganna

Ragnar Önundarson skrifaði:

„Fjársterkum fákeppnisfélögum voru veitt forréttindi sem jafnvel hið opinbera hikar við að taka sér.“

Lög um ökutækjatryggingar frá 15. maí 2019 veittu tryggingafélögum svonefnt „lögveð“ í bifreiðum, frá og með 2020. Þessi gjörningur var vægast sagt óvenjulegur. Fjársterkum fákeppnisfélögum voru veitt forréttindi sem jafnvel hið opinbera hikar við að taka sér.

„Lögveðsréttindi eru tegund veðréttinda sem stofnast samkvæmt sérstakri lagaheimild (lögveðsheimild) að stofnskilyrðum uppfylltum. Regluverk það er gildir um lögveð hefur sætt gagnrýni fyrir að vera óskýrt og flókið enda engri heildarlöggjöf til að dreifa. Reglur um lögveð er þannig að finna í alls 49 lögveðsheimildum, auk hinna almennu reglna er um þau gilda sem ýmist eru lögfestar eða óskráðar. Tilvist lögveða í íslenskum rétti hefur ennfremur sætt gagnrýni fyrir þær sakir að lögveðin hvíli sem leynd höft á eignum vegna þess að réttarvernd þeirra er óháð opinberri skráningu um réttarvernd. Kunna lögveð af þessum sökum að koma aftan að kaupendum, samningsveðhöfum og lánardrottnum, ekki síst vegna þess að rétthæð lögveða gagnvart öðrum óbeinum eignarréttindum er óháð aldri. Í athugasemdum við frumvarp til þinglýsingalaga var tilhögun þessi réttlætt með því að kaupendum og lánveitendum væri í lófa lagið að kynna sér hver lögveð kunni að hvíla á eignum…“ skrifar Andri Axelsson lögfræðingur.

Hið opinbera tryggir sér (sveitarfélögum) td. innheimtu fasteignagjalda með lögveðum. Af framangreindum ástæðum hefur löggjafinn verið tregur til að veita einkaaðilum lögveð. Nú hefur það skref hins vegar verið stigið að veita einni gerð fákeppnisfélaga, tryggingarfélögunum, lögveð í bifreiðum. Þetta eru tímamót. Hefði ekki verið nær, svo eitthvað sé nefnt, að hið opinbera tæki sér lögveð í eignum fólks fyrir þeim lífeyrissvikum sem felast í að koma sér undan greiðslum í lífeyrissjóð?

Vitað er hvaða fjárhæðir fólk þarf að eiga í lífeyrissjóði til að sjá sér farborða í ellinni. Margir stunda „svarta vinnu“ en borga hvorki skatt né í lífeyrissjóð. Þeir geta yfirfært eignir til afkomenda sinna fyrir starfslok og verið á framfæri annarra eftir það. Þetta er eitt mesta þjóðfélagsmein samtímans.

Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: