- Advertisement -

ERU SIÐAREGLUR RÁÐHERRA OG STJÓRNMÁLAFLOKKA BROTNAR?

Björgvin Guðmundsson.

Björgvin Guðmundsson: Ég hef skrifað talsvert um ofbeldi ráðherra gagnvart öryrkjum á tímabilinu 2016-2018. Ofbeldið hóst haustið 2016, þegar ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks ákvað skyndilega að svíkja öryrkja um að afnema krónu móti krónu skerðingu hjá öryrkjum hjá TR.

Þá gerðist þau fáheyrðu tíðindi, að ráðherrarnir sögðu við öryrkja: Við afnemum ekki krónu móti krónu skerðingu hjá ykkur nema þið samþykkið starfsgetumat! Þessi vinnubrögð voru kolólögleg að mínu mati. En enginn stjórnmálamaður, enginn flokkur reis upp til varnar öryrkjum. Það var níðst á öryrkjum og beitt ofbeldinu og kúgun gegn þeim en enginn reis upp þeim til varnar.

Þó vantar ekki siðareglur hjá ráðherrum og flokkum, sem banna slík vinnubrögð. Í siðareglum ráðherra segir svo í 1.gr: Ráðherra sinnir starfinu sínu af alúð, trúmennsku og HEIÐARLEIKA. Hann beitir því valdi, er fylgir embættinu á grundvelli laga og stjórnarskrár af hófsemi og sanngirni og án tillits til eigin hagsmuna.

Það er ekki verið að sinna starfi af heiðarleika, þegar öryrkjum er stillt upp við vegg og sagt við þá að þeir verði að „versla“ við stjórnvöld til þess að losna við krónu móti krónu skerðingu; þeir verði að samþykkja starfsgetumat ef þeir ætli að fá afnám krónu móti krónu skerðingar. Þessi vinnubrögð eru svo kolólögleg að þeir sem beita þeim eiga að vera undir lás og slá!

Það er furðulegt, að enginn stjórnmálamaður skuli fordæma vinnubrögð stjórnvalda gagnvart öryrkjum! Það mætti ætla að það væri einhver samtrygging í gangi. En það vantar ekki, að stjórnmálamenn, sem ekki voru á Klausturbar kvöldið góða, fordæmi athæfi sexmenninganna. Það ætlar engan endi að taka. „Saklausir“ þingmenn hamast á sexmenningunum stanslaust og meira að segja fær Anna Kolbrún Árnadóttir sinn skammt þó hún hafi ekki sagt eitt einasta orð á Klausturbar. Ef til vill gætu þingmenn beint einhverju af reiði sinni gegn ofbeldi og kúgun, sem ríkisstjórnin beitir öryrkjum!


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: