- Advertisement -

Bjarni Ben og ég

Þegar Bjarni Benediktsson missti stjórn á skapi sínu og nánast öskraði að mér að hann ætlaði aldrei að tala við mig framar, og stóð við það, var það ekki aðför að manninum Sigurjón M. Egilssyni, prívat og persónulga. Nei, Bjarni ákvað, viljugur og einbeittur, að framvegis muni hann ekki talað við einn og ákveðinn blaðamann. Ætli fleiri blaðamenn hafi svipaða sögu af segja af Bjarna? Ég veit ekkert um það.

Bjarni byrjaði, í þessu síðasta samtali okkar, ef samtal skal kalla, að bera á mig rangar sakir. Sagði ítrekað að ég hefði borið út óhróður um hann og fjölskyldu hans. Það var rangt. Ég gaf mig ekki og eftir talsverðan eftirgang nefndi hann loks við hvað hann átti. Hann sagði mig hafa lækað færslu Gunnars Smára bróður míns. Bjarni sagði það nóg. En hvaða færslu, jú þessa:

„Engey er víða. Áður en neyðarlögin voru sett hringdi Sturla Pálsson, hagfræðingur í Seðlabankanum, í konu sína, Helgu Jónsdóttir, eins og fram kom í Kastljósi, og upplýsti um yfirvofandi aðgerðir bankans. Helga er dóttir Guðrúnar Sveinsdóttur, systur þeirra Einars og Benedikts Sveinssonar, stórtækra fjárfesta. Benedikt er faðir Bjarna, sem nú er fjármálaráðherra. Hann og Helga eru systkinabörn. Áður en neyðarlögin voru sett fengu Engeyingar því viðvörun og svigrúm til að bjarga sínu. Algjörir snillingar.“

Bjarni má ráða við hvaða fólk hann talar, eða hvað? Þarna vorum við tveir, ásamt nokkrum sem hlustuðu á deiluna, hann formaður stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar og ráðherra í ríkisstjórn og ég, sem hef í lengri tíma en flestir nústarfandi blaðamanna fjallað um íslensk stjórnmál. Í meira en þrjátíu ár.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Er það eðlilegt að maður í hans stöðu grípi til slíkra viðbragða? Nei, auðvitað ekki. Stjórnmálamenn verða að þola fjölmiðlafólk. Á löngum tíma hef ég kynnst mörgu fólki í stjórnmálum. Vissulega hafa aðrir stjórnmálamenn hótað og staðið við það. En þeir eru mun færri en hinir.

Stundum hefur fokið í menn og þeir orðið sárir eða reiðir. Meira að segja eru til stjórmálamenn sem hafa hringt eftir reiðiköst og beðist afsökunar. Sagst hafa gengið of langt. Slíkt er eins eðlilegt og hugsast getur. Það er alvörufólk. Bjarni greinilega fyllir ekki í þann hóp.

Hvernig Bjarni lét, fékk mig til að hugsa mig um. Við hvað starfaði ég? Vildi ég þetta? Þegar menn einsog Bjarni eru fremstir meðal stjórnmálamanna er þá ekki bara nóg komið? Þegar menn eldast hættir þeim til að sjá fortíðina í fallegu ljósi. En ég verð að samt að segja að menn einsog Bjarni Benediktsson eiga langt í land með að ná öðrum sem ég hef fjallað um og unnið nálægt. Ég nefni nokkra. Davíð, Friðrik Sophusson, Þorstein Pálsson, Jón Baldvin, Jón Sigurðsson, Sighvat Björtvinsson, Steingrím Hermannsson, Halldór Ásgrímsson, Ingibjörgu Pálmadóttur, Svavar Gestsson, Ólaf Ragnar og Ingibjörgu Sólrúnu svo einhver séu nefnd.

Hér eru fáar konur nefndar, ég gæti nefnt fleiri en segi þetta gott.

Í dag er dagur frjálsra fjölmiðla, eða eitthvað ámóta. Af því tilefni skrifa ég þetta. Ég minni á að afstaða Bjarna er í sjálfu sér ekki aðför að mér, enda skipti ég litlu máli 64 ára gamall maðurinn, en hún er aðför að frjálsum fjölmiðlum.

Sigurjón M. Egilsson.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: