- Advertisement -

Bólusetningar: Að mála skrattann á vegginn

Gunnar Smári skrifar: Tja, oft ratast Kára satt orð á munn (og stundum getur verið skynsamlegra að vera með honum í liði, annars gæti hann sparkað í rassinn á manni) en ég stend með Líf (Ullmann) í þessu. Sóttvarnarlæknir sagði um daginn að 2% fólks vildi ekki bólusetja börn sín en að um 91% barna væru bólusett. Það eru því 7% foreldra sem vilja bólusetja börn sín en gera það ekki, af einhverjum ástæðum. Í þeim löndum þar sem mislingar hafa blossað upp hefur bólusetningin fallið niður fyrir 80%. Við erum ekki í þeim vanda og sá vandi er ekki tilkominn af einarðri afstöðu foreldra um að vilja ekki bólusetja börn sín. Tillaga sjálfstæðismanna er því klassískur for-fasismi; það er verið að mála skrattann á vegginn í fyrsta lagi (við erum ekki á hættuástandi), í öðru lagi er verið að persónugera vandann í tilteknum fámennum hópi (fólki sem beygir sig ekki undir viðurkennd sannindi kerfisins) og í þriðja lagi að beita afli hins opinbera til að þröngva hinni viðurkenndu skoðun upp á fámennan minnihluta, ekki vegna þess að það sé nauðsynlegt heldur vegna þess að hið opinberar býr yfir afli til að gera það. Það eina sem það þarf er umboð almennings og það ætlar xD að sækja með því að magna upp andúð gagnvart þessu fólki, sannfæra almenning um að okkur standi ógn af fólki sem er ekki sammála okkur.

Sem við gerum ekki. Það er ekkert sem bendir til að sannfæring um að bólusetningar séu hættulegar fari vaxandi. Þvert á móti, þetta er frekar deyjandi hugmynd. Við þolum það vel að 2% foreldra vilji ekki bólusetja börn sín og það er ekkert sem kallar á heilagt stríð gegn þessu fólki, að þröngva því að gera eitthvað við börn sín sem það er sannfært um að skaði börnin. Holí shitt, hvað það er ljót hugmynd. Auðvitað er fræðilegur möguleiki að einhvern tímann inn í myrkri framtíð þurfum við að grípa til slíkra óyndisúrræða, en við getum blessað hvern dag sem við þurfum þess ekki. Og það er ekki gáfuleg afstaða að horfa á heiminn sem línulega jöfnu; segja sem svo að ef fjöldi þeirra foreldra sem vilja ekki bólusetja börnin sín heldur áfram að vaxa þá muni það skapa vandamál djúpt inn í framtíðinni og þess vegna þurfum við að taka upp fasisma ekki seinna en núna.

Sóttvarnarlæknir sagðist í viðtali um daginn vilja halda bólusetningum nálægt 95%. Engin vá væri þí ó dag þótt hlutfallið sé 91%. Ég myndi vilja spyrja hann hvað hann vilji gera til að lyfta hlutfallinu upp og hjálpa honum við það. Hann vill ekki vísa óbólusettum bornum frá leikskólum. Telur það vonda hugmynd. Í stjórnsýslu á að nota þá reglu að velja mildari aðgerðina fram yfir þá sem er meira íþyngjandi. Sjálfstæðisflokkurinn er að leggja til að vísa börnum tiltekins hóps foreldra frá leikskólum, eitthvað sem við höfum ekki séð síðan … aldrei. Við ættum að velja mildari leiðina í þessu, alls ekki láta stjórnmálaflokka sem eru að máta sig við létt-fasisma (og eru meðal annars í alþjóðlegu bandalagi slíkra flokka ásamt Erdogan í Tyrklandi og Lög & rétti í Póllandi) nota þetta dæmi til að fá okkur til að prufukeyra vald hins opinbera gegn fámennum hópi.

Ég vil taka fram að ég er alfarið með bólusetningum. Börnin mín eru þræl-bólusett. Ég held að andúð fólks gegn bólusetningum sé byggð á blekkingum og þvælu. En ég vil fá að stunda rökræður um bólusetningar við aðra foreldra án afskipta hins opinbera. Þessi örþunni hópur foreldra er enginn ógn við allsherjarreglu eða almannaheill. Hann gæti orðið það, ef hann fær vind i seglin, en ekkert bendir til að hópurinn fari stækkandi. Minni bólusetningar eru afleiðingin slælegra aðhalds og verklags, kannski vegna þess að samfélagið er ekki eins einsleitt og fyrr. Við skulum því laga kerfin en láta það fólk í friði sem er með skrítnar skoðanir. Okkur stendur engin ógn af því. Það er minnst mál í heimi að halda uppi öruggum bólusetningum án þess að ráðast að þessu fólki og sannfæringu þess. Byrjum frekar á þessum 7% sem vilja bólusetja börnin en hafa ekki gert það.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þar fyrir utan: Tengjum heilsugæsluna skólum og leikskólum. Þegar ég var barn var bæði tannlæknir og hjúkrunarkona í skólanum. Frábært sístem, einkum þegar miklar samfélagsbreytingar ganga yfir (ég var ungur þegar fólk flutti umvörpum utan af landi í bæinn) og heilsugæslan þarf að fara út á meðal fólksins, ekki bara bíða eftir að fólkið komi til sín. Ég var bólusettur fyrir kúabólu í skólanum, get sýnt ykkur örið ef þið viljið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: