- Advertisement -

Borgum saman 160 milljarða aukalega

„Lækkun vaxta mun auðvelda fyrirtækjum að hækka laun og fjölga störfum og lækkun vaxta mun auka ráðstöfunartekjur almennings umtalsvert.“

„Ég tel brýnasta verkefni sem við öllum þurfum að leggjast á árarnar með er að lækka vexti á Íslandi. Á undanförnum áratugum hafa raunvextir á Íslandi verið 2 til 4% hærri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

„Þetta þýðir að á hverju ári eru íslensk heimili að greiða allt að tæpa 80 milljarða meira í vexti en þau lönd sem við viljum bera okkur saman við í ljósi þessi að heildarskuldir íslenskra heimila eru um 1.900 milljarðar.

Það er ekki bara að þetta lendi illilega á skuldsettum heimilum að raunvextir séu hér 2 til 4% hærri en t.d. á Norðurlöndunum heldur bitnar þetta skelfilega á íslenskum fyrirtækjum, en þau skulda um 85% af landsframleiðslu sem þýðir að skuldir fyrirtækja nema um eða yfir 2000 milljörðum. Íslensk fyrirtæki eru því að greiða allt að 80 milljarða meira í vexti á ári miðað við þá raunvexti sem eru í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Takið eftir að samtals eru íslensk heimili og íslensk fyrirtæki að greiða allt að 160 milljarða meira í vexti á hverju ári vegna Þess að raunvextir á Íslandi eru 2 til 4% hærri en t.d. á Norðurlöndunum og víðar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Takið líka eftir að það kostar fyrirtæki á hinum almenna vinnumarkaði um 50 milljarða að hækka laun um 5% en á sama tíma og stjórnvöld og Seðlabankinn vara við að stöðugleikanum sé ógnað ef samið sé um meira en 3% launahækkun, þá segja þessir aðilar ekkert þótt íslensk fyrirtæki þurfi að greiða 40 til 80 milljörðum meira í vexti en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Því er það langbrýnasta hagsmunamál þjóðarinnar bæði fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki að vextir verði boði með sambærilegum hætti og á Norðurlöndunum. Lækkun vaxta mun auðvelda fyrirtækjum að hækka laun og fjölga störfum og lækkun vaxta mun auka ráðstöfunartekjur almennings umtalsvert.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: