- Advertisement -

Brestir og brak í ríkisstjórninni?

„Svandís Svavarsdóttir hefur undanfarð unnið að því að efla Landspítalann en koma í veg fyrir sjálftöku sérfræðilækna hjá Sjúkratryggingum.“

Björgvin Guðmundsson.

Björgvin Guðmundsson skrifar: Í gær skrifuðu þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins harða gagnrýni á Svandísi Svavarsdóttur í Mbl, sem Rósa Björk þingmaður VG túlkaði sem árás á heilbrigðisráðherra í Silfrinu í dag. Rósa Björk sagði, að þetta væri ekkert annað en árás á ráðherrann. Og Rósa Björk spurði hvort þessir þrír þingmenn ætluðu að styðja frumvörp heilbrigðisráðherra.

Svandís Svavarsdóttir hefur undanfarð unnið að því að efla Landspítalann en koma í veg fyrir sjálftöku sérfræðilækna hjá Sjúkratryggingum en undanfarin misseri hafa greiðslur ríkisins til Sjúkratrygginga vegna sérfræðilækna aukist miklu meira en greiðslur til Landspítalans. Birgir Jakobsson, fyrrverandi landlæknir, gagnrýndi þetta harðlega sem landlæknir jafnframt sem hann gagnrýndi einnig harðlega að sérfræðilæknar á Landspítalanum og yfirlæknar gætu verið að vinna á einkastofum úti í bæ samhliða störfum á Landspítalanum. Slíkt tíðkast ekki í Svíþjóð.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksin gagnrýna Svandísi fyrir það sem þeir kalla að hún sé að koma upp tvöföldu heilbrigðiskerfi. Einnig gagnrýna þeir hana fyrir að senda sjúklinga út til Svíþjóðr í liðskiptaaðgerðir (ef bið verður of löng eftir aðgerð eiga sjúlingar rétt á að leita aðgerðar erlendis). Rósa Björk benti á, að kafli væri um heilbrigðismál í stjórnarsáttmálanum. Gaf hún til kynna að Svandís væri að vinna í samræmi við þennan sáttmála. Samningur sjúkratrygginga við sérfræðilækna rennur út um áramót. Hefur Svandís talað um að gera nýja samninga við læknana til mánaðar í senn en læknar taka því mjög illa.

Fram kom einnig i Silfrinu, að óánægja ríkir með ákvörðun menntamálaráðherra um styrki til einkarekinna fjölmiðla svo og styrki til bókaútgáfu í stað þess að fella niður virðisaukaskatt af bókum eins og lofað var í stjórnarsáttmálanum. Fram kom í Silfrinu, að engir peningar væru í fjárlagafrumvarpinu til þess að fjármagna ráðstafanir menntamálaráðherra. Er engu líkara en fjármálaráðherra hindri framgang ráðstafana menntamálaráðherra.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: