- Advertisement -

Diljá Mist er ekkert annað en ómerkilegur pólitískur loddari

Sólveig Anna skrifar:

Henni stendur nákvæmlega á sama um þá staðreynd að fjöldi verkakvenna hefur ekki efni á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Diljá Mist Einarsdóttir, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, segir í Silfrinu fáránlega „sorgarsögu“ um vesalings ekkjuna sem á 200 milljónir í hreina eign en er samt eitt stærsta fórnarlamb Íslandssögunnar vegna illsku þeirra sem vilja réttlátari skattheimtu. Diljá Mist vill að við verðum döpur og hnuggin yfir þessari hýpóþetísku gömlu konu. En Diljá Mist stendur nákvæmlega sama um þær raunverulegu verka og láglaunakonur sem eiga ekki krónu með gati, þær raunverulegu konur sem eru fangar hinnar viðbjóðslegu samræmdu láglaunastefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn og auðvalds-eigendur hans viðhalda með kjafti og klóm, fangar þess kerfis sem nærist á því að arðræna og kúga konurnar sem halda umönnunarkerfunum okkar gangandi og búa til hagvöxtinn með vinnu sinni á hótelunum, í fiskvinnslunni osfrv. Henni stendur nákvæmlega á sama um þá staðreynd að fjöldi verkakvenna hefur ekki efni á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Henni stendur nákvæmlega á sama um að stór hópur verkakvenna sé fastur á leigumarkaði og þurfi að horfa á eftir ráðstöfunartekjum sínum í vasa þeirra sem tilheyra eignastéttinni. Henni er nákvæmlega sama um þær konur sem urðu undir í Covid-kreppunni og þurftu að leita á náðir hjálparsamtaka til að fá mat fyrir sig og afkvæmi sín á meðan þær sukku enn dýpra í fátæktar-fenið. Diljá Mist er nákvæmlega sama um konurnar sem fastar eru í hlekkjum örorkubótanna og fátæktinni sem þeim fylgja. Diljá Mist er nákvæmlega sama um efnahagslegan RAUNVERULEIKA verka og láglaunakvenna. Fyrir henni eru þær svo ómerkilegar að það þarf ekki einu sinni að láta sem þær séu til. Betra að delera og bulla um einhverjar ekkjur sem, ef þær á annað borð eru til, tilheyra ríkasta og dekraðasta hluta þeirra sem byggja þetta land, og afvegaleiða með því lýðræðislega, pólitíska umræðu.

Diljá Mist er ekkert annað en ómerkilegur pólitískur loddari. Ég vona af öllu hjarta að hún og þessi ömurlegi arðráns og spillingarklúbbur sem hún tilheyrir, Sjálfstæðisflokkurinn, missi þau eitruðu völd sem þau hafa í samfélaginu okkar. Í guðanna bænum, stöndum saman og sjáum til þess að svo verði 25. september. Það er komið svo miklu meira en nóg af þessu fáránlega og skammarlega rugli. 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: