- Advertisement -

Efling gerir sitt besta til að draga úr tjóni atvinnulífsins

Marinó G. Njálsson skrifaði:

Ég er ekki að átta mig á kvörtunum yfir því, að Efling hyggst byrja verkfallsaðgerðir sínar hjá einum vinnuveitanda. Talað er um mismunum, að verið sé að ráðast á ferðaþjónustuna og ósanngirni.

Ég spyr bara: Væru þeir sem eru að kvarta ánægðari, ef Efling stefndi á allsherjarverkfall?

Sé litið á núgildandi kjarasamning Eflingar við SA, þá falla undir hann störf við ræstingar, í byggingarstarfsemi, tækjastjórnendur, hópbifreiðastjórar, iðnverkafólk, starfsmenn á smurstöðvum, ryðvarnarskálum og dekkjaverkstæðum, bensínafgreiðslustörf, öryggisverðir, fiskvinnslufólk, fiskeldisstörf, starfsfólk í mötuneytum, olíustöðvar, hafnarvinna, hótel og veitingahús og starfsmenn í umönnun. Ég veit ekki hjá hve mörgum fyrirtækjum þeir sem falla undir samninginn vinna eða á hve mörgum vinnustöðum, en er nokkuð viss um að mun fleiri verða fyrir áhrifum af allsherjarverkfalli heldur en á þeim 7-8 hótelum Íslandshótela sem hafa orðið fyrir valinu.

Ég fæ ekki séð, að aðgerðir Eflingar séu ósanngjarnar…

Súrt fyrir Íslandshótel, sem verður fyrir tjóni, meðan aðrir vona að ekki verði tíðtækari verkföll, en Íslandshótel hefðu líka orðið fyrir tjóni í allsherjarverkfalli. Ef ég á bara að segja eins og er, þá er Efling að gera sitt besta til að draga úr tjóni atvinnulífsins (og þar með ferðaþjónustunnar) af verkföllum, minnka óþægindi almennings af þeim og bjóða þjóðfélaginu að halda þjónustustigi þess nánast óskertu, meðan ekki verður farið í frekari verkfallsaðgerðir. Helstu áhrifin verða á takmarkaðan hóp ferðamanna, en ferðamenn eru vanir því um allan heim, að það er betra að vera við öllum búnir.

Ég fæ ekki séð, að aðgerðir Eflingar séu ósanngjarnar, mismununin felst í því að leyfa nánast öllum að halda starfsemi sinni óraskaðri og árásin á ferðþjónustuna er ekki meiri en svo, að öll ferðaþjónustufyrirtæki nema eitt geta haldið áfram á fullum afköstum (meðan veður leyfir). Kannski að SA ætti að hafa sjóð (svipuðum verkfallssjóði stéttafélagana) sem gæti bætt fyrirtækjum tjón, þegar verkföllum er beint gegn einu fyrirtæki. (Merkilegt að ekki sé hægt að kaupa rekstrarstöðvunartryggingu á Íslandi sem bætir tjón fyrirtækja vegna verkfalla.)

Eitt er alveg á hreinu, að SA hélt að Efling væri að blöffa og voru ekki tilbúin til að ræða af viti kröfur félagsins. Þegar svo er, þá er verkfall eina vopn láglaunafólksins sem er á broti af launum framkvæmdastjóra SA. Ég hélt að allir væru búnir að læra það, að ekki þýðir að sýna Sólveigu Önnu löngutöngina!

Greinina birti Marinó fyrst á Facebooksíðu sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: