- Advertisement -

Efling lýsir yfir reiði

Á stjórnarfundi Eflingar sem lauk rétt í þessu var þessi ályktun samþykkt einróma:

Stjórn Eflingar – stéttarfélags lýsir reiði og undrun vegna framgöngu Icelandair í garð flugfreyja og stéttarfélags þeirra, Flugfreyjufélags Íslands, í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður.

Icelandair hefur að mati stjórnar Eflingar notfært sér óvissu og efnahagssamdrátt vegna Kórónaveirufaraldursins til að klekkja á flugfreyjum á einkar tækifærissinnaðan og ósanngjarnan hátt. Stjórn Eflingar telur að flugfreyjur eins og annað verkafólk innan vébanda ASÍ eigi rétt á sambærilegum kjarasamningi og þeim sem nú er í gildi hjá yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna aðildarfélaga ASÍ.

Fréttir í helstu fjölmiðlum herma að Icelandair hyggist leita leiða til að ráða flugfreyjur utan stéttarfélaga eða jafnvel beita sér fyrir stofnun sérstaks stéttarfélags í þeim tilgangi að geta samið um verri kjör fyrir flugfreyjur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þessir starfshættir eru gróf ögrun við lög, venjur og sameiginlegan skilning aðila sem íslenskur vinnumarkaður byggir á.

Verkafólk á skýlausan rétt til að bindast samtökum í stéttarfélagi til að semja um sín kaup og kjör. Sá réttur er mannréttindi og er varinn af bæði lögum og stjórnarskrá. Allt verkafólk á ríka hagsmuni af því að standa sameiginlegan vörð um þennan rétt.

Ætli íslensk stórfyrirtæki nú með aðstoð hins opinbera að hefja árásir á þessi grunnréttindi verkafólks mun Efling – stéttarfélag ekki horfa upp á það þegjandi og hljóðalaust.

Stjórn Eflingar bendir á að Icelandair er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða, sem eru sameiginlegir sjóðir launafólks og undir stjórn þeirra. Lífeyrissjóðir hljóta að hafna því að fjárfesta í fyrirtækjum sem stunda beinar árásir á grunnréttindi launafólks.

Að sama skapi bendir stjórn Eflingar á að íslenska ríkið heldur nú uppi rekstri Icelandair með beinum stuðningi. Stjórn Eflingar krefst þess að íslenska ríkið, rétt eins og lífeyrissjóðir, hafna því að styðja við fyrirtæki sem stunda árásir á lögvarin réttindi verkafólks.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: