- Advertisement -

Efnahagsleg kúgun á verka og láglaunakonum er raunveruleg á Íslandi

Sólveig Anna Jónsdóttir:

Hér má lesa erindi mitt frá því á Jafnréttisþingi fyrr í dag: Verkakonur veraldarinnar. Um efnahagslega tilveru verkakvenna og baráttu þeirra við arðránið.

Góðan dag og takk fyrir að bjóða mér á Jafnréttisþing. Ég var satt best að segja virkilega hissa þegar að haft var við mig samband og mér boðið að koma hingað og tala. Ég hélt að mér hefði verið al-slaufað fyrir margvíslega glæpi. Ánægjulegt að vita að svo er ekki.

Er efnahagsleg kúgun á verka og láglaunakonum raunveruleg á Íslandi? Já, svo sannarlega.Hvaða áhrif hefur slík kúgun? Hræðileg áhrif sem m.a. birtast í heilsuleysi sem leiðir til örorku og styttra lífs en hjá konum ofar í stigveldinu.Hvaða tól skila verkakonum árangri í baráttunni við arðránið? Samstaða er máttugasta vopnið, samstaða þvert á tungumál, menningu og upprunaland. Þarna þarf ég ekki að leita í kenningabanka annara eða í sjálfa mannkynssöguna, heldur hef ég séð þetta og upplifað á eigin skinni. Og fremstar í samstöðu-verkefni vinnuaflsins á Íslandi standa aðfluttar konur. Þetta er erindi er tileinkað þeim; Körlu, Barböru, Lucynu, Ruth, Innocentiu, Marcelu, Olgu, Mögdu og öllum hinum sem vita að framlag þeirra til þjóðfélagsins er þúsund sinnum meira virði en kven-haturs niðurstaða arðránsverkefnis yfirstéttarinnar segir það vera.

Þú gætir haft áhuga á þessum

SAJ:

Verka og láglaunakonur og fulltrúar þeirra hafa verið jaðarsettar og útilokaðar með markvissum hætti.

Á Íslandi ríkir kerfisbundin andúð á kven-vinnuaflinu. Verka og láglaunakonur og fulltrúar þeirra hafa verið jaðarsettar og útilokaðar með markvissum hætti. Um það er hægt að nefna fjölmörg dæmi; eitt af þeim nærtækustu Jafnréttisþing 2020 en þá gleymdust láglaunakonur Reykjavíkurborgar, þrátt fyrir að þær væru þá í verkfalli þar sem að meginkrafan var leiðrétting á sögulega vanmetnum kvennastörfum. Þá ákváðum við Eflingar-konur að tryggja að valdastéttin horfði ekki í gegnum okkur, sögðum Samstaðan er okkar beittasta vopn, með henni getum við breytt samfélaginu, og birtumst óboðnar hér í Hörpu við setningu þingsins. Gengum svo burt til að halda áfram með okkar árangursríka verkfall, en um hinn raunverulega og markverða árangur þess má m.a. lesa í skýrslum Kjaratölfræðinefndar. Og heyra um í hræðsluáróðri Samtaka atvinnulífsins nú í aðdraganda kjarasamningsviðræðna, en þar eru menn verulega daprir yfir því að láglaunakonur Eflingar hafi náð að knýja á um leiðréttingu á sögulega vanmetnum kvennastörfum. Enda veit fólk þar á bæ að ekkert er verra en þegar kven-vinnuaflið nær árangri í sínum efnahagslegu upprisu-verkefnum, slíkt gerir ekkert nema að æsa upp tryllinginn í kven-hjörtunum og gera þær enn gráðugri í frekari sigra. Vondar verkakonur allra landa sameinist, þið hafið engu að tapa nema hlekkjum auðvaldsins og heila Jafnréttisparadís að vinna.

Jaðarsettning og útilokun á kven-vinnuaflinu hefur haft ömurleg áhrif. M.a. þau að pólitísk og efnahagsleg valdastétt hefur komist upp með að gera ofur-arðrán á alþjóðlegum láglaunakonum Íslands að sínu sameiginglega hagsmunamáli. Umönnunarkerfi velferðarsamfélagsins eru rekin á vinnuafli kvenna sem fá fyrir framlag sitt laun sem duga ekki til framfærslu. Valdastéttin vill ekki koma auðstéttinni í uppnám með því að láta meðlimi hennar borga með sanngjörnum og eðlilegum hætti til samfélagsins. Því er lúxus-líf hinna ríku niðurgreitt með því að láta kven-vinnuafl umönnunarkerfanna axla þyngri byrðar og hlaupa hraðar. Staðreyndin er þessi: á Íslandi er stundað auðmannadekur á kostnað láglaunakvenna. Það eru ekki aðeins velferðakerfin okkar sem eru nöguð innað beini, konurnar sjálfar sem að vinna við rekstur þeirra á hverjum degi, verða fyrir stöðugu glefsi af því sérstaka miskunarleysi sem hin jaðarsettu verða fyrir, hér og annars staðar í veröldinni. Konurnar eru ekki aðeins ofur-arðrændar við að sinna félagslegri endurframleiðslu. Okkar kynskipti vinnumarkaðaður býður upp á fjölbreytta arðráns-möguleika á kven-vinnuaflinu: Ófaglærðar verkakonur vinna störfin sem borga lökustu launin sama hvoru megin línunnar þær lenda, á opinbera markaðnum eða hinum almenna. Það hafa einfaldlega verið samantekin ráð svokallaðra aðila vinnumarkaðarins, heildarsamtaka launafólks, hins opinbera og Samtaka atvinnulífsins að gera kven-vinnuaflið að helstu arðráns-uppsprettu Íslands. Þessu getur enginn neitað enda eru hin sögulega gögn vitnisburður um þetta.

Ófaglærðar verkakonur eru arðrændustu manneskjur íslensks vinnumarkaðar. Það hafa þær verið frá ómunatíð og eru enn. Þær konur sem að hingað flytja og taka þátt á vinnumarkaði bætast einfaldlega í þann hóp.

SAJ:

Eflingar-konur kvíða eftirlaunaárunum og vita að það verður mjög erfitt að komast af á ellilífeyri.

Hvaða áhrif hefur hið yfirgengilega og ógeðslega arðrán á alþjóðlegu kven-vinnuafli því sem að kyndir ofna félagslegrar endurframleiðslu og snýr hjólum atvinnulífsins á Íslandi? Meðal annars þessi áhrif: samkvæmt nýrri könnun Gallup fyrir Eflingu (þar sem að met var slegið í þátttöku, sérstaklega hjá aðflutta fólki) hafa fjölþjóðlegar Eflingarkonur miklar fjárhagsáhyggjur; sex af hverjum tíu Eflingarkonum hafa viðvarandi fjárhagsáhyggjur. Og samkvæmt könnun Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, er það svo að þefar Eflingar-konur eru bornar saman við konur í öðrum stéttarfélögum er staða þeirra áberandi verri, þær þurfa frekar að leita aðstoðar vegna fjárhagsvandræða. Eflingarkonur vinna undir gríðarlegu álagi; sex af hverjum tíu segja álagið vera of mikið. Þarna hefur stytting vinnuvikunnar ekkert gert til að bæta ástandið. Eflingar-konur kvíða eftirlaunaárunum og vita að það verður mjög erfitt að komast af á ellilífeyri. Í landi kynjajafnréttisins er það meðfæddur réttur verkakonunnar að hafa áhyggjur alla ævi.

Af þessum ástæðum og fjölmörgum öðrum setjum við sem tilheyrum stétt kven-vinnuaflsins, fæddar hér eða hingað fluttar, upp stéttagleraugun. Við stígum til baka og horfum yfir þjóðfélag það sem okkur er gert að lifa inn í. Sýn okkar verður eins skýr og hugsast getur. Og við sjáum okkur og félaga okkar hlaupandi frá einu verki í annað, út einu starfi í annað. Við sjáum blankheit og áhyggjur. Við sjáum heilsuleysi. Við sjáum jaðarsettningu. Við sjáum fátækt. Og við sjáum algjört áhugaleysi valdastéttarinnar. Við sjáum að það skiptir ekki máli hvort að við erum fæddar hér eða hingað fluttar, það tekur bókstaflega enga stund að finna rétta plássið fyrir okkur í stigveldi Íslands; ófaglærða verkakonan hefur verið og er staðsett neðst, sama hvaða strandhögg femínisminn gerir í samfélagi okkar.

Hversvegna berjast verka og láglaunakonur Eflingar, hér fæddar og hingað fluttar, fyrir hærri launum, af slíkum þrótti og metnaði sem raun ber vitni? Staðreyndin er jú sú að Eflingar-konur hafa leitt allar verkfallsaðgerðir félagsins á síðustu árum. Þar hafa aðfluttar Eflingar-konur verið í framvarðasveitinni. Jú, vegna þess að þær bókstaflega þola ekki lengur þá vanvirðingu sem þeim er sýnd. Þær bókstaflega þola ekki lengur að fá sönnum mánaðarleg á því að hjarta-afl þeirra, vöðva-afl, heila-afl er, þrátt fyrir að vera ómissandi, metið svo lítils virði af reiknimeisturum stöðugleikans að þær fá aldrei um frjálst höfuð strokið. Þessvegna berjast þær, fyrir sig sjálfar og allar hinar.

Alþjóðlegar Eflingar-konur vita að við munum ekki fá neinar formlegar viðurkenningar fyrir upprisu okkar, engar orður eða jafnréttisverðlaun.

SAJ:

Við munum ekki umbera meira af því virðingarleysi sem okkur hefur verið sýnt, áhugaleysinu, jaðarsettningunni. Við erum ekki ómerkilegar, ógreinilegar og illskiljanlegar.

Svoleiðis hefur það verið og þannig verður það. Við þolum það vel. En við krefjumst virðingar. Samfélagslegrar og efnahagslegrar. Við munum ekki umbera meira af því virðingarleysi sem okkur hefur verið sýnt, áhugaleysinu, jaðarsettningunni. Við erum ekki ómerkilegar, ógreinilegar og illskiljanlegar. Nei, við erum ómissandi og því munum við verða eins sýnilegar og hugsast getur, kröfur okkar eins skiljanlegar og hugsast getur. Við erum hér og ekki á förum. Það er tímabært fyrir alla að venjast því, sama hversu ömurlega leiðinlegt það er. Það er persónuleg og það er pólitísk ákvörðun að þola arðránið ekki lengur. Og slík afstaða, sem næst þegar að persónulegt líf og pólitísk afstaða renna saman, er afstaða sem getur borið með sér stórkostlegan árangur. Það vita öll sem eitthvað vita.

Hvað er það besta sem gerst getur til að tryggja að Ísland læri að meta framlag hins alþjóðlega kvenvinnuafls sem nákvæmlega á þessari stundi svitnar fyrir hagvöxtin og kyndir ofna félagslegrar endurframleiðslu á umönnunar-stofnunum velferðarkerfisins? Það er ekki að stofna starfshóp, eða upphugsa enn eitt kerfið eða setja markmið á blað um einhvern árangur einhverntímann. Nei, það besta sem að hægt er að gera til að tryggja að Ísland læri að meta framlag hins alþjóðlega kven-vinnuafls er að láglaunakonur Íslands tengist tryggðarböndum, horfi hver á aðra og í spegilinn, segi hátt og snjallt hið forboðna; við erum ómissandi og enginn skal lengur komast upp með að kúga okkur.

Ekkert getur verið árangursríkara en pólitísk og persónuleg niðurstaða þessara kvenna um að standa saman í baráttunni.

SAJ:

Eflingar-konur hafa lært að verkföll skila árangri; meirihluti Eflingar-kvenna styður verkföll til að ná fram bættum kjörum. Ég veit að slíkt kvenfrelsunar-verkefni vekur ekki gleði í öllum hjörtum og að hér inni er fólk sem fölnar við tilhugsunina.

Verka og láglaunakonur á höfuðborgarsvæðinu hafa hafist handa við eitt það mikilvægasta sem að konur geta gert; frelsunarverkefni sem snýst um að sjálfs-frelsun. Við ætlum að meta okkur sjálfar til launa. Við ætlum að nota ýmis tól í samfélagsvirðingar-verkefni okkar; tungutak og baráttuaðferðir femínismans en fyrst og fremst tungutak og baráttuaðferðir verkalýðs allra landa; það máttugasta, mikilvægasta, markverðasta og magnaðasta; að leggja niður störf til að fá fram viðurkenningu á mikilvægi okkar. Eflingar-konur hafa lært að verkföll skila árangri; meirihluti Eflingar-kvenna styður verkföll til að ná fram bættum kjörum. Ég veit að slíkt kvenfrelsunar-verkefni vekur ekki gleði í öllum hjörtum og að hér inni er fólk sem fölnar við tilhugsunina. En það lætur okkar eigin hjörtu slá hraðar; við höfum komist að því að við bókstaflega elskum að taka baráttuna í okkar eigin fjölþjóðlegu verkakonu -hendur.

Hvað höfum við Eflingar-konur lært á síðustu árum?

Við höfum lært að við munum ekki fá neina utanaðkomandi viðurkenningu á verkum okkar og sigrum. Við þurfum sjálfar að minna á það sem við höfum áorkað, aftur og aftur. Við eigum bara einn vettvang og það er félagið okkar, Efling.Við höfum lært að tungumálamunur skiptir ekki máli í baráttunni, ef að viljinn er fyrir hendi er hægt að yfirstíga allar áskoranir. Við höfum lært að Eflingar-menn vilja standa með okkur og sjá ekkert athugavert við að við tökum forystu í baráttunni fyrir efnahagslegu réttlæti. Við höfum lært að hræðast ekki áróðurs-maskínur óbreytts ástands. Þær eru vissulega ógeðslegar en við lærum að leiða þær hjá okkur. Og við höfum lært að til að ná árangri þarf óbilandi samstöðu. Og að samstaðan er með galdra í sér; samstaða fæðir af sér meiri samstöðu, og hún fæðir af sér hugrekki og eldmóð. Hún er grundvöllurinn að öllu öðru í baráttu okkar gegn stéttskiptingu og óréttlæti, fyrir láglaunakvenna-kvenfrelsi.

Aðfluttar Eflingarkonur hafa leikið lykihlutverk í baráttu félagsins fyrir efnahagslegu réttlæti. Þær koma allstaðar að úr heiminum og tala ótal tungumál. Þær mæta til leiks á alla vettvanga félagsins og eru allstaðar í framvarðasveit baráttunnar. Aðfluttar Eflingarkonur eru í mínum huga hetjur verkalýðsbaráttu íslensks samtíma. Ég kann þeim miklar og ævarandi þakkir fyrir dugnaðinn og metnaðinn. Ég vona að samfélagið allt skilji hversu merkilegar þær eru. Eða réttara sagt; ég vona ekkert, ég veit að þær sjálfar munu sýna samfélaginu það. Þær hafa þegar gert það og næsta sýning, kjarasamningar vetrarins, er rétt að hefjast. Ykkur er öllum boðið að fylgjast með henni.

Takk fyrir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: