- Advertisement -

„Ég er verðmetin sem drasl“

Þið eruð hetjur. Ég óska þess að Reykjavík verði nógu gæfusöm til að skilja það.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Með sjálfsvirðinguna að vopni ákváðum við að taka slaginn. Við ákváðum að krefjast þess að kjör okkar og aðstæður væru leiðrétt. VIð ákváðum að segja sannleikann um fáránleika kerfisins sem allt samfélagið þarf á að halda en sem undirverðmetur grimmilega vinnuframlag okkar, án tillits til heilsu okkar eða velferðar. Við ákváðum að það væri tímabært að öll þyrftu að horfast í augu við okkur og frásagnir okkar. Við ákváðum að skila skömminni yfir lágu laununum, þangað sem hún á heima, hjá þeim sem greiða þau. Við ákváðum að hætta að þegja. Við ákváðum að rísa upp.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og það var skelfilegt.

Það var árið 2012 sem skærasta ljós sem hægt er að hugsa sér rann upp fyrir mér. Ég var í vinnunni, í hvíld með börnunum. Ég var með hræðilegar fjárhagsáhyggjur. Hrunið hafi leikið mig illa. Það voru aldrei til neinir peningar. Ég var aldrei laus við áhyggjur. Ég lá á dýnu á gólfinu og fylgdist með börnunum um leið og ég fór í yfir stöðu heimabankans í höfðinu, í þúsundasta skiptið. Mér varð litið á dagatal sem hékk á veggnum. 2012 stóð stórum stöfum. Það var líkt og ártalið horfði á mig. Ég hugsaði: Í fjögur ár er ég búin að vinna í leikskóla. Ég er ómissandi starfskraftur. Ég geri allt sem að ég á að gera og miklu meira til. Ég fæ aldrei nóg útborgað til að losna við áhyggjurnar. Ég fæ aldrei nóg til að tryggja eigin fjárhagslegt sjálfstæði. Ég er verðmetin sem drasl. Ég er fórnarlamb láglauna-kvenna-kúgunnar.

Ég mun aldrei gleyma þessari stund, þegar mín eigin tilvera og staður minn í stigveldinu urðu mér alveg ljós. Á þessari stundu breyttist það hvernig ég horfði á sjálfa mig og samstarfskonur mínar, hverjar við vorum og hvað við gerðum. Ég sá okkur allar í nýju ljósi. Ég sá hóp kvenna allstaðar að úr heiminum sem vinnusamir dugnaðarforkar. Sem var samt að gert að lifa við hræðilega skert kjör. Ég sá konur sem að unnu í endalausum aukavinnum, til að geta boðið börnunum sínum upp á tómstundir, upp á eðlilega æsku. Ég sá konur sem að settu sjálfar sig alltaf í aftasta sætið þegar það kom að því í hvað litlu konu-launin ættu að fara. Og ég sá arðránskerfið afhjúpað. Eins afhjúpað og nokkur kona hefur séð það. Og það var skelfilegt.

Áður en ég fer út í morguninn langar mig að segja þetta: Takk kæru konur fyrir að vilja taka slaginn. Takk fyrir að skila skömminni. Takk fyrir að segja Hingað og ekki lengra. Takk fyrir að vilja nota alla ykkar stórkostlegu sjálfsvirðingu til að reyna að breyta reykvísku samfélagi. Það er ómetanlegt. Af öllu hjarta, sem konan sem ég var árið 2012 og konan sem ég er núna; þið eruð hetjur. Ég óska þess að Reykjavík verði nógu gæfusöm til að skilja það.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: