- Advertisement -

Einhverskonar áramóta eitthvað

Sólveig Anna skrifar: Mig langar að segja: Innan hug­mynda­heims þeirra sem stjórna eru engin svör handa þeim sem strita til að hafa í sig og á. Lág­launa­konan þarf því að horfast í augu við að ekki er hægt að feta áfram sömu braut, ekki er hægt að bíða eftir því að stjórn­málin færi henni rétt­læti. Hún þarf að horfast í augu við þá stað­reynd að á meðan stjórn­málin eru ennþá hel­tekin af því að við­halda stöð­ug­leika með því að lifa eftir heims­sýn auð­hyggj­unnar um að best sé að ríkt fólk verði rík­ara og eigna­laust vinnu­afl haldi áfram að fokka sér, á meðan auð­stéttin er hel­tekin af því að stöð­ug­leiki verði aðeins tryggður með því að kæfa í fæð­ingu allar kröfur um rétt­lát­ari skipt­ingu gæð­anna, á meðan eng­inn vill stjórna einu né neinu með það í fyr­ir­rúmi að leyfa skúr­inga­kon­unni og barnapíukonunni að eiga skemmti­legt líf, á meðan þau sem stjórna segja þessum konum að skúra sig innað miðj­unni svo að þær megi þar lifa sem „hags­muna­að­ilar vinnu­mark­að­ar­ins“ í lífs­tíð­ar­löngu hjóna­bandi við aðra hags­muna­að­ila vinnu­mark­að­ar­ins, menn sem þær voru aldrei spurðar hvort þær vildu giftast, menn sem fara ekki um þær neitt sér­stak­lega mjúkum hönd­um; já, hvað þarf lág­launa­konan að horfast í augu við?

Kannski það að hún til­heyrir stétt. Kannski það að hún þarf stétta­bar­áttu. Kannski það að hún þarf stétta­bar­áttu af því að öllum sem eiga og öllum sem ráða og öllum sem mega á Íslandi er meira umhugað um „ein­ingu þjóð­ar­inn­ar“ en það að sumt fólk á ekki einu sinni nóg af þús­und­köllum til að duga í einn mán­uð.

Kannski þarf hún að horfast í augu við að í lífi hennar bók­staf­lega krist­all­ast mun­ur­inn á stétt og stétt, í því krist­all­ast mun­ur­inn á þeim raun­veru­leika sem hún, vinnu­aflið, gerir þjóð­fé­lag­inu sýni­legan ein­fald­lega með lífi sínu og lífs­kjörum, og hins vegar veru­leika valda­stétt­ar­inn­ar; við erum öll að vinna að sama mark­miði, Guð blessi Ísland, það er hlut­verk lág­launa­kon­unnar að sýna und­ir­gefni, hlýðni, nægju­semi og skal hún því sam­stundis láta af allri uppi­vöðslu­semi því ann­ars munu fjár­magns­eig­endur ekki eiga ann­ara kosta völ en að koma eigum sínum undan til Panama og Tortóla, svona rétt áður en flug­sam­göngur leggj­ast af afþví hún er svo klikkuð að vilja fá 425.000 krónur í laun og hvaða kona vill eig­in­lega bera ábyrgð á svo­leiðis ham­förum?

Kannski þarf hún að horfast í augu við að tvö­feldnin umlykur líf henn­ar: Hún er einn af hags­muna­að­ilum vinnu­mark­að­ar­ins með 358.000 krónur á mán­uði á meðan hinir hags­muna­að­il­arnir eru með svona frá einni komma sex millj­ónum uppí sirka sjö millj­ón­ir, hún hefur aðgang að sjúkra­sjóð á meðan hinir hafa aðgang að þjóð­ar­sjóð, hún hefur aðgang að tveggja her­bergja leigu­í­búð meðan hinir hafa aðgang að íbúðum sem fjár­fest­ing­ar­tæki­færum, hún sjálf getur aldrei orðið sam­ein­ing­ar­tákn en það er mik­il­vægt að hún sýni sameiningartáknum virð­ingu þegar þau sigla hjá, að auk­inn kaup­máttur ann­ara hlýtur að vera huggun harmi gegn þegar hún drífur sig af stað í vinnu númer tvö, að þegar hún kemst á eft­ir­laun og fær því sem næst ekki neitt fyrir öll skúr­uðu gólfin og öll pössuðu börnin þá á hún að muna að Ísland er til algjörrar fyr­ir­myndar í alþjóð­legu sam­hengi þegar kemur að jafn­rétti kynj­anna og mun eflaust sjálft geta sæmt sig Fálka­orðu fyrir það afrek mjög fljót­lega.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: