- Advertisement -

Enn rann Bjarna í skap á Alþingi

Bjarni: Þetta er auðvitað algjört rugl.

„Hvað á það að þýða að mönnum þyki það góð hugmynd að við þinglok sé samið um það í þingnefnd að einhverju tilteknu máli, sem háttvirtur þingmaður í þessu tilviki hefur lagt fram, verði vísað til ríkisstjórnar gegn loforði um að einhver ráðherra lofi í eigin nafni að leggja málið fyrir Alþingi? Það var notað orðið fúsk hér áðan, þetta er ekki fúsk en þetta er algjör brenglun á öllum lögmálum hér á þinginu. Og sama gildir um það þegar menn setja inn í bráðabirgðaákvæði með lögum, eins og átti við í öðru máli sem nú er fram komið á þinginu, tilmæli til ráðherra um að hann láti semja frumvarp einhvers efnis og leggi það fyrir Alþingi til meðferðar,“ sagði Bjarni Benediktsson áberandi önugur þegar hann svaraði Þorsteini Sæmundssyni Miðflokki.

Þorsteinn spurðist fyrir um frumvarp um hærri starfsaldur ríkisstarfsmanna, úr 70 árum í 73.

„Af hverju leggja menn ekki bara mál sín fyrir hér á þinginu og láta á það reyna hvort þau hafi einhvern meirihlutastuðning? Hvað á það að þýða að vera að leggja það fyrir ráðherra, setja þeim fyrir einhverja heimavinnu að búa til fyrir þingið, eða einstaka þingmenn, einhver frumvörp og flytja þau síðan í eigin nafni eins og þau væru þeirra hugðarefni? Þetta er auðvitað algjört rugl, svo ég taki ekki sterkar til orða. Ég hafna alfarið þessum vinnubrögðum og hvet þingið, nefndir þingsins, einstaka þingmenn sem hafa hér frumkvæðisrétt, reyndar langt umfram það sem gildir í öðrum þingum, rétt til þess að leggja fram mál og láta reyna á þau hvort stuðningur er við þau, að láta af þessum bellibrögðum að vera að reyna að snúa upp á handlegginn á ráðherrum og pína þá til að leggja fram mál alveg óháð því hvort þeir hafa áhuga á þeim eða ekki,“ sagði ráðherrann.

Þorsteinn: En ruglinu tók hann þátt í, hæstvirtur ráðherra.

Þorsteinn benti Bjarna á að hann sjálfur sé ekki saklaus af „ruglinu“:

„Svo vill til að hæstvirtur ráðherra tók þátt í því rugli í atkvæðagreiðslu í fyrra, um frumvarp sem hann lýsti eftir að þingmenn kæmu fram með og þessi þingmaður hefur komið með fram þrisvar, að samþykkja sjálfur hér í atkvæðagreiðslu að þetta frumvarp færi til ríkisstjórnar undir þeim formerkjum að það kæmi fram á síðustu haustmánuðum. Þannig tók hæstvirtur ráðherra þátt í því rugli og þeirri brenglun sem hann lýsti í svari sínu hér áðan, sem er náttúrlega fullkomið ábyrgðarleysi og hroki. En hæstvirtur ráðherra svaraði samt ekki spurningunni: Hvers vegna hefur þetta frumvarp ekki komið fram? Það var einfalt í eðli sínu. Hvers vegna hefur hann ekki staðið við það sem var samið um við þinglok í fyrra? Það eru spurningarnar. En ruglinu tók hann þátt í, hæstvirtur ráðherra.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: