- Advertisement -

Fær þá Jón „forseti“ Guaidó ekki hæli sem flóttamaður?

Kristinn Hrafnsson skrifaði:

Þegar Juan Guaidó reyndi að ræna völdum í Venesúela sá Bandaríkjastjórn sér leik á borði og sá tækifæri til að losna við kommúnistann Madúró. Hún ákvað að Guaidó væri lögmætur forseti landsins. Stjórnir Evrópuríkja og nokkur önnur til, gerðu slíkt hið sama eins og kórdrengir sem tóna með æðstaprestinum. Því var mjög hampað að næstum 50 ríki styddu Guaidó en ekki getið að það þýddi að 150 ríki studdu hann ekki.

Íhaldsöxulinn yfir Atlanshafið færði líka Guaidó gjafir, þannig gaf Bandaríkjastjórn honum yfirráð yfir bandarískum olíufyrirtækjum í eigu ríkissjóðs Venesúela og í London ákvað íhaldsstjórnin að afhenda honum 30 tonn af gulli sem voru til geymslu í Englandsbanka. Guðlaugur Þór, þá utanríkisráðherra í nýfrjálshyggjustjórn Katrínar Jakobsdóttur (sem situr enn) lýsti því yfir fyrir hönd allra íslendinga að Juan Guaidó væri þeirra forseti. Íslenska hægri stjórnin vildi einnig sýna stuðning í verki.

Ef Ameríkaninn segir að þetta sé svona þá er það bara svona.

Af einskærri manngæsku var ákveðið að opna íslensk landamæri fyrir öllum flóttamönnum frá Venesúela, svona rétt á meðan draumastjórn nýfrjálshyggjunnar tók til heima fyrir. Því kostaboði var tekið fagnandi og Venesúelabúar streymdu til Íslands. En eitthvað gékk illa fyrir forsetann Guaidó að koma sér fyrir og undan honum fjaraði nokkuð hratt. Meðferð hans á verðmætunum þótti líka einkennast af „skorti á gagnsæi“ sem er kurteislegt orðalag yfir spillingu. Oíuverð hækkaði líka sem gerði Madúró kleyft á gera ástandið í landinu skárra og vinsældir hans og styrkur efldist.

Guaidó var því ekki lengi í Paradís og í nálægum löndum urðu stjórnarbreytingar frá hægri til vinstri og þar var hann settur út af sakramenntinu svo sem í Kólumbíu, Brasilíu og töluvert sunnar í Santiago í Chile. Innrás Rússa í Úkraínu minnti einnig Bandarísk stjórnvöld á, að það þyrfti að skoða olíuhagsmuni sér nær og mundu menn þá allt í einu eftir því að stærstu olíubirgðir heims eru í Venesúela. Það varð kúvending. Bandaríkjastjórn hætti að púkka upp á Juan Guaidó og ákvað að hann væri eftir allt saman ekki frelsishetjan Jón forseti. Evrópuríkin fylgdu með og flestöll leppríki. Þetta fór hljótt og án yfirlýsinga, á Íslandi sem annars staðar. Ekki er að finna neitt á vef utanríkisráðuneytis Sjálfstæðisflokksins um hvort Flokkurinn hafi stigið þetta skref enda svo sem óþarft að ræða það. Ef Ameríkaninn segir að þetta sé svona þá er það bara svona.

Ísdrottningin sem tók við forystuhlutverki í úthýsingarmálum, fól því Kærunefnd útlendingamála að bræða hann saman.

Án pólitísks rökstuðnings (engin spurði heldur) breytti þetta stöðu boðsgestanna frá Venesúela. Úr því Guaidó er ekki lengur forseti heldur Madúró þótti einhvern veginn ekki nokkur ástæða til annars en að senda fólkið sem tók gylliboðinu og flúði til Íslands undan Madúró, til baka …til Madúró!

En eftir þetta undarlega hliðar, saman, hliðar dansspor íslenskra stjórnvalda, undir tónsprota Bandaríkjanna sat eftir amk á annað þúsund Venesúelabúar á Íslandi og skilja hvorki upp né niður í þessu salsa-afbrigði. Landið sem bauð það velkomið í skjól undan ömurlegri vist í ofríki kommúnismans hefur nú skipt um skoðun og telur fullboðlegt að það hunskist heim til sín. Þó að hér sé vending þar sem tilvalið væri að dusta rykið af nokkrum uppáhaldsfrösum Íhaldsins þegar það þarf að skýra það óskýranlega, svo sem „forsendubrestur“ eða „ómöguleiki“ var fremur reynt að klæða þetta í betri búning til að gefa pólitískri hringavitleysu lögmæti með stjórnvaldsstimpluðum orðavaðli.

Ísdrottningin sem tók við forystuhlutverki í úthýsingarmálum, fól því Kærunefnd útlendingamála að bræða hann saman. Niðurstöðurnar eru þunnur þrettándi, eitthvað á þá leið að kommúnisminn sé sársaukaminni en áður. Til að bíta hausinn af skömminni byggir Kærunefnd útlendingamála málflutning sinn að miklu leyti á skýrslum bandaríska utanríkisráðuneytisins og bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

Menn nenna ekki einu sinni að dylja taglhnútinn.

Í þessu máli fann Sjálfstæðisflokkurinn líka uppruna sinn og svarar fylgishrapi með því að hata nú útlendinga, sérstaklega ef þeir eru ekki arískir. Sjálfstæðisflokkurinn tekur nú undir það stef að útlenskt fólk frá suðurálfu sé að stela saggafullum, ljóslausum kolakjöllurum frá rammíslensku fólki í húsnæðisvanda.

Ég hugsa að gestunum frá Venesúela sé ekki skemmt, það svaraði hjartnæmu gylliboði um að setjast að veisluborðinu á Íslandi en fær nú bara vatnsglas í anddyrinu og er svo skipað að snauta heim til sín.

En Katrín Jakobsdóttir brosir – og veifar bless.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: