- Advertisement -

Félagsbústaðir hækka enn leiguna

Sanna Magdalena Mörtudóttir er á borgarráðsfundi og skrifar:

Fréttir úr borgarráði. Í dag fórum við yfir árshlutareikning Reykjavíkurborgar fyrir janúar-júní 2018. Ýmislegt sem hægt var að setja athugasemd við en fannst sérstaklega mikilvægt að fjalla um þessa tvo þætti sem koma fram í bókun minni:

Í árshlutareikningi kemur fram að hækka þurfi leiguverð hjá Félagsbústöðum um 7% til viðbótar á árinu til að tryggja jafnvægi í sjóðstreymi árin 2018 og 2019 m.v. að verðbólguforsendur fjárhagsáætlunar standist. Samkvæmt frekari útskýringum er átt við 2% hækkun að auki við þá 5% hækkun á leiguverði sem hefur nýlega átt sér stað.

Hlutverk Félagsbústaða er að leigja til tekjulágra einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta staðið undir greiðslubyrði lána vegna íbúðakaupa og eiga ekki kost á leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Leigjendur innan Félagsbústaða eru nú þegar komnir að þolmörkum hvað varðar leigugreiðslur. Óásættanlegt er að viðkvæmur hópur almennings sé látin standa undir slíkri hækkun.

Í árshlutareikningi kemur einnig fram að útgjöld vegna langtímaveikinda námu alls um 357 mkr í grunnskólum, leikskólum og frístund og að gjaldfærð langtímaforföll í grunnskólum og leikskólum séu samtals 62 mkr umfram fjárheimildir á tímabilinu.

Draga má þá ályktun að mikið álag sé á starfsfólkinu í þessum störfum og geta langtímaforföll m.a. átt sér stað vegna útkeyrslu og kulnunar í starfi. Þar er deginum ljósara að hækka þarf lág laun á þessum starfsvettvangi, til að draga úr manneklu og álagi á starfsfólkið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: