- Advertisement -

Freku karlarnir úr Eyjum

Pólitískur guðfaðir þeirra beggja segir siðareglur gagnslausar. „Það eru ríkar ástæður til að efast um að slíkar reglur hafi nokkurs staðar komið að raunverulegu gagni.“

Páll Magnússon, fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, er mjög upprifinn yfir framgöngu félaga síns, Ásmundar Friðriksson, annars þingmanns flokksins í sama kjördæmi.

Sem frægt er orðið, skilur fólk almennt ekki nokkrur atriði, í lífi og starfi Ásmundar. Það fyrsta er að hann skuli ekki brjóta odd af oflæti sínu og fara að reglum þingsins og rúnta um á bílaleigubíl, svo hversu ótrúlega mikið hann hefur ekið og að endingu, hvaða erindi átti hann, langt umfram aðra þingmenn. Kjósendur í kjördæminu leita eflaust merkja um árangur þess að bíll Ásmundar kólnar varla.

Páll Magnússon

Já, Páll Magnússon. Hann reynir að taka töffarann á þetta og segir „góða fólkið“ ærast af vandlætingu yfir dugnaði Ásmundar. Hið svo kallað góða fólkið sýnir dugnaði enga vandlætingu, enda snýst mál Ásmundar ekkert um dugnað. Bara alls ekki. Það snýst um ofgnótt og það mjög mikla. Þannig að bæði góðu fólki og flestum öðrum er brugðið.

Páll settist við lyklaborðið og skrifaði: „Nú kann að vera að hægt sé að haga sumum ferðalögum þingmanna í stórum landsbyggðarkjördæmum með eitthvað ódýrari hætti en gert er, en síst af öllu ætti að letja þá til ferðanna og tengsla við fólkið.“ Vont er að trúa að þingmaðurinn Páll viti ekki að honum, Ásmundi og öðrum landsbyggðarþingmönnum Sjáflstæðisflokksins, sem og þingmönnum annarra flokka, er uppálagt af Alþingi Íslendinga að ferðast um á bílaleigubílum, þ.e. ef ekið er meira en fimmtán þúsund kíklómetra á ári.

Ætlar að keyra ekki minna en Ási

Páll opinberar að hann er hugsi. Hann hefur lesið listann undarlega um akstur þingmanna og komist að þessari niðurstöðu: „Nú hef ég ekki komist í að athuga hvar ég er sjálfur á þessum lista en óttast að ég sé ekki nógu ofarlega; að ég hafi ekki verið nógu duglegur við að fara um kjördæmið mitt. Ég ætla að bæta úr því.“

Hægðarleikur er að lesa annað út úr því sem þingmaðurinn segir, t.d. að hann ætli að ná sér í ekki minni pening en Ási.

Alþingi Ísleninga:
„…yfir á bílaleigubíla lækkaði kostnaður samkvæmt akstursdagbók um 10 milljónir á ári…“

Þingmenn, reglur og bílaleigubílar

Skoðum aðeins það sem þingmenn eiga að gera, en gera ekki allir, en samt sumir. Ég las, nú man ég ekki hvar en held að það hafi verið í Fréttablaðinu: „Í svari við annarri fyrirspurn frá mér kemur til dæmis fram að þegar þingmenn Norðvesturkjördæmis skiptu frá akstursdagbókum yfir á bílaleigubíla lækkaði kostnaður samkvæmt akstursdagbók um 10 milljónir á ári og kostnaður við bílaleigubíla hækkaði um 4 milljónir. Það var sem sagt 6 milljón króna sparnaður af því að þingmenn notuðu bílaleigubíla í stað eigin bíls og akstursdagbókar.“

Eins hefur komið fram að Alþingi hefur ekkert eftirlit með hvort akstursreikningar þingmanna séu réttir eða rangir. Þeir skammta sér sjálfir peninga úr ríkissjóði.

Davíð Oddsson um siðareglur:
„Það eru ríkar ástæður til að efast um að slíkar reglur hafi nokkurs staðar komið að raunverulegu gagni.“

Davíð Oddsson og uppeldið

Við vitum að hver flýgur einsog hann er fiðraður. Uppeldi skiptir jú miklu máli. Pólitískur guðfaðir Sjálfstæðisflokksins skrifaði í blað sitt nú um helgina: „Nú er í tísku að setja siðareglur um hvað eina og binda menn við þær með óljósum afleiðingum þó. Það eru ríkar ástæður til að efast um að slíkar reglur hafi nokkurs staðar komið að raunverulegu gagni.“

Af þessu sést að ekki er endilega við þá að sakast, Pál og Ásmund, um hvaða augum þeir líta smugur til að auðgast aðeins meir. Þetta er uppeldislegt. Þeim er kennt frá blautu pólitískubeini að gera sem allra, allra minnst úr siðareglum, að vera á móti þeim. Sama hvað.

Innnmúraðir og innvígðir Eyjamenn

Við, sem í tilraunum til háðungar, erum kallað góða fólkið, sjáum sjálftökuna á allt annan hátt en innmúraðir og innvígðir. Hvað sagði ég, innmúraðir og innvígðir? „Það er auðvitað kaldhæðni í því að rótgróinn sjálfstæðismaður etji kappi við innmúraðan krata af  Túngötunni í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins,“ skrifaði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um kollega sinnn Pál Magnússon, þegar þeir tókust á um forystusæti flokksins í Suðurkjördæmi. Páll hafði betur einsog við vitum.

Þetta var þegar þeir tókust á, áður en þeir sóru fóstbræðraeiðinn. Ákváðu að ganga hina pólitísku göngu í takt. Eftri stendur að frekjan var ekki meðfædd. Hún er áunnin í starfi innan flokksins, flokksins þar sem siðareglur eru sagðar gagnslausar. Með öllu.

-sme

 

 

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: