- Advertisement -

Fréttablaðið og verkalýðurinn

Sólveig Anna: Er hægt að tala um mjúka lendingu þegar efnahgslegt réttlæti er aðeins fjarlægur draumur í hugum lágtekjuhópanna?

Sólveig Anna skrifar: En og aftur birtist leiðari í Fréttablaðinu þar sem ráðist er að verkalýðshreyfingunni (þetta er orðið svo fyrirsjáanlegt að það næstum sorglegt). Í honum er meðal annars vitnað í veitingamann sem sagði þetta í blaðinu í gær: „Verkalýðsfélögin koma vopnuð á vígvöllinn og ætla sér að koma með heildarlausn á markaðinn. Dæmin sem þau taka eiga hins vegar bara við handfylli af fyrirtækjum sem þau vilja siða til en stráfella alla hina í leiðinni“. Þetta kvót sem enginn með fullu viti getur skilið (heildarlausn á markaðinn, stráfella alla hina?) er notað til að sýna fram á vanstillingu verkafólks en ekki til að biðja veitingamanninn að slaka örlítið á í móðursýkinni.

Taktíkin sem notast á við til að kremja baráttu verka og láglaunafólks er orðin augljós: Það á að einangra og jaðarsetja verkalýðshreyfinguna. Það á að láta eins og allt sem frá henni kemur sé tryllingur í byltingarsinnum. Það á að hræða fólk svoleiðis að það þori ekki að taka undir kröfurnar.

Ég þekki ekki til höfundar leiðarans en mér leikur forvitni á að vita af hverju hún er nú þegar, í upphafi vetrar orðin þreytt á umræðunni um hvað skuli teljast eðlileg laun fyrir greidda vinnu; hvort það sé eðlilegt að sum fái svo lítið að ekki sé með nokkru móti hægt að komast af á upphæðinni meðan aðrir fái ekki aðeins nóg til að lifa í vellystingum heldur til safna stórkostlegum hrúgum af fjármunum.
Það er ekki hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að þagga eða breiða yfir það sem á sér stað í íslensku viðskiptalífi. Það er fráleit krafa. Og hvað þýðir mjúk lending? Er hægt að tala um mjúka lendingu þegar efnahagslegt réttlæti er aðeins fjarlægur draumur í hugum lágtekjuhópanna? Er hægt að tala um mjúka lendingu þegar húsnæðismál vinnuaflsins; aðflutts verkafólks, einstæðra mæðra, ungs fólks sem ekki kemur af vel settu fólki, eru í uppnámi vegna þess að í velsældar-uppsveiflunni var ekkert gert til að tryggja „heildarlausn á markaðinn“ en fjármagnseigendum leyft að fara sínu fram, óáreittum?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eða getur það verið að fólki finnst sjálfsagt mál, alveg í himnalagi að mjúka lendingin þeirra verði, eins og aðrar lendingar (líka brotlendingar, þær sem kallaðar eru Hrun) bornar af þeim eru verðlögð lægst af öllum?

Þar sem höfundur talar um að best sé að hækka skattleysismörk til að gera tilveruna betri fyrir lágtekjufólk langar mig að benda á að Starfsgreinasambandið hefur lagt fram kröfugerð á stjórnvöld þar sem meðal annars segir:

„Lægstu laun verði skattfrjáls með tvöföldun persónuafsláttar, sem verði síðan stiglækkandi með hærri tekjum, þannig að lækkun skatta á lág- og millitekjuhópa verði m.a. fjármögnuð með hærra skattaframlagi þeirra tekjuhæstu. Álagning tekjuskattkerfisins á lægri og hærri tekjuhópa verði þar með líkari því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum.“

Í stað þess að nota öll tækifæri til að ráðast að hreyfingunni og kröfum verkafólks um allt land, kröfum unnum á lýðræðislegan máta af meðlimum verkalýðsfélaganna, hvernig væri þá að skoða kröfugerðirnar og horfast í augu við að þær eru einmitt ekki galnar, óraunhæfar, samdar af byltingarhyski, heldur byggðar á efnahagslegum raunveruleika vinnuaflsins og raunsærri greiningu á stöðu mála í íslensku samfélagi. Hvernig væri í stað þess að vitna í mann sem er greinilega ekki í góðu jafnvægi að skoða kröfurnar og sjá hvort þær eru ekki afskaplega eðlilegar og já, ég ætla að dirfast segja það, lausnamiðaðar? Eða getur verið að það einfaldlega henti ekki þeim sem vilja ata okkur aur?

Að lokum: Hér er mynd ykkur til upplýsingar. Þið megið skoða hana og spyrja ykkur sjálf: Er ekki kominn tími til að breyta þessari þjóðarskömm?

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: