- Advertisement -

Fréttaskýring: Hörð átök þegar bankarnir voru seldir

Sigríður Dögg Auðunsdóttir blaðamaður skrifaði, á árinu 2005, mikla úttekt um einkavæðingu bankanna og í Mannlífi árið 2008 var vitnað til þeirra skrifa og öðrum heimildum bætt við. Hér er einn kafli af því sem birtist í Mannlífi.

Bankarnir seldir

Áður en kom til sölu ríkisbankanna deildu Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson svo lá við stjórnarslitum. Mest var deilt um sölu Landsbankans á hluta sínum í VÍS haustið 2002, en Landsbankinn átti helminginn í VÍS á móti S-hópnum, sem síðar keypti Búnaðarbankann. Davíð og Halldór áttu sannarlega beina aðkomu að sölu beggja bankanna, þeir tóku völdin af framkvæmdanefnd um einkavæðingu og sáu til þess að bönkunum væri komið í hendurnar á réttum eigendum; Landsbankanum til Björgólfsfeðga fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og Búnaðarbankanum til S-hópsins fyrir hönd Framsóknarflokksins. Framkvæmdanefnd að einkavæðingu hafði vorið 2002 unnið að því að allur eftirstandandi hlutur ríkisins í Landsbankanum, tæpur helmingur, yrði seldur á almennum markaði eftir vel heppnað hlutafjárútboð til almennings fyrr á árinu og misheppnaða sölu á kjölfestuhlut í bankanum til erlends aðila haustið 2001.

Ráðherranefndin, sem í sátu Davíð Oddsson forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra og Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, hafði gefið framkvæmdanefndinni fyrirskipanir um að undirbúa sölu hlutarins á almennum markaði. Dreifð eignaraðild, sem Davíð Oddsson hafði áður talað fyrir, yrði tryggð með því að leyfa engum að kaupa meira en þriggja til fjögurra prósenta hlut í bankanum. Ekki átti að selja Búnaðarbankann fyrr en að fenginni reynslu við söluna á Landsbankanum, en stefnt var að því að salan yrði með sama hætti.

Viðsnúningur

Davíð Oddsson skipti snögglega um skoðun. Í verðlaunaðri úttekt Sigríðar Daggar Auðunsdóttur um einkavæðingu bankanna segir: „Með einu símtali Björgólfs Guðmundssonar til Davíðs Oddssonar í júní 2002 var einkavæðingarferli bankanna kippt úr höndunum á framkvæmdanefndinni. Ráðherranefndin tók U-beygju í afstöðu sinni til sölunnar og lagði nýjar línur fyrir framkvæmdanefndina. Selja ætti allan eignarhlut beggja bankanna til eins fjárfestis.

Bankarnir voru auglýstir og sendu fimm inn tilkynningar um áhuga: Samson, sem var samsettur af Björgólfi Guðmundssyni, syni hans Björgólfi Thor Björgólfssyni og Magnúsi Þorsteinssyni; Kaldbakur sem samanstóð af Eiríki Jóhannessyni og Þorsteini Má Baldvinssyni; S-hópurinn, sem Ólafur Ólafsson stýrði; Íslandsbanki og Þórður Magnússon fyrir hönd fjárfesta.

Samson, Kaldbakur og S-hópurinn voru valdir til frekari viðræðna um kaupin á Landsbankanum, sem fara áttu fram fyrst. Öllum þeim sem komu að einkavæðingarferlinu, hvorum megin við borðið sem þeir sátu, var frá upphafi ljóst að ætlun ráðherranna væri sú að Björgólfsfeðgar fengju Landsbankann.

Þá gerðu ráðherrar Framsóknarflokksins, þau Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir, ítarlegar tilraunir til þess að fá Kaldbak og S-hópinn til að sameinast um kaupin á Búnaðarbankanum. Halldór Ásgrímsson kom sjálfur til leiðar, og tók þátt í, fundum með Kaldbaksmönnum og fulltrúum S-hópsins í því skyni að reyna að koma á samvinnu þeirra á milli.“

Samson bauð lægst

Þegar Landsbankinn var seldur átti Kaldbakur hæsta tilboðið, 4,16 á hlut, S-hópurinn næsthæsta með 4,10 á hlut og Samson var með lægsta tilboðið, sem var á verðbilinu 3,10 til 3,90 á hlut með ýmsum tilgreindum fyrirvörum. Í viðræðum framkvæmdanefndarinnar

við hópana hafði Samson ítrekað lýst því yfir að hópurinn væri ekki tilbúinn að greiða hærra verð en sem samsvaraði 3,50 fyrir hlutinn. Framkvæmdanefndin og ráðherranefndin höfðu þó gert grein fyrir því að ekki yrði hægt að taka tilboði undir 3,90 á hlut.

Áður en framkvæmdanefndin tilkynnti að farið yrði í viðræður við Samson um kaupin á Landsbankanum höfðu farið fram óformlegar viðræður um verð milli framkvæmdanefndarinnar og Samson. Samson stóð þó fastur á því að ekki kæmi til greina að greiða meira en 3,50 á hlutinn. Niðurstöðurnar úr hinum óformlegu viðræðum urðu þær að Samson myndi skila inn tilboði á verðbilinu 3,10 til 3,90 með ýmsum tilgreindum fyrirvörum og í samningaviðræðum yrði tekið tillit til þeirra fyrirvara sem settir væru fram í tilboðinu.

Þetta kemur fram í greinarflokki Sigríðar Daggar.

 Reiknilíkan sniðið að tilboði Samson

„Þegar tilboðin voru komin inn var ljóst að Samson var með lægsta tilboðið. Ekki hafði enn verið ákveðið hvernig meta ætti hvern þátt tilboðsins samkvæmt auglýsingunni, það er að segja hvaða vægi hver þeirra fimm þátta sem tilgreindir voru í auglýsingunni ætti að hafa.

Leitað var til ráðgjafans, HSBC, til að útfæra matið. Starfsmaður framkvæmdanefndarinnar, Skarphéðinn Berg Steinarsson, fór því til London í því skyni og kom til baka með tilbúið reiknilíkan um það hve mikið vægi hver þáttur ætti að hafa.

Hinn 8. september kynnti ráðgjafinn frá HSBC matið og forsendur þess á fundi framkvæmdanefndar. Niðurstaðan var sú að miðað við hinar gefnu forsendur væri Samson líklegast til þess að uppfylla markmið ríkisins með sölunni.

Ágreiningur kom upp í nefndinni um matið, ekki síst um vægi verðsins í reiknilíkaninu og hinar huglægu forsendur sem lægju að baki mati annarra þátta líkansins. Bent var á að nær ómögulegt væri að gefa framtíðaráætlunum hópanna einkunn út frá öðrum forsendum en huglægu mati. Því væri óverjandi að þáttur á borð við framtíðaráætlanir yrði jafnveigamikill í reiknilíkaninu og verð,“ segir í úttektinni.

Verðið í þriðja sæti

Í áliti HSBC, sem var ráðgjafi við söluna, voru eftirfarandi þættir í tilboðum bjóðendanna þriggja teknir til athugunar: Fjárhagsstaða fjárfestis, framtíðaráform um rekstur bankans, hugmyndir um staðgreiðsluverð, þekking og reynsla fjárfestis á fjármálamarkaði og skilyrði af hálfu kaupenda.

Í reiknilíkani HSBC höfðu tveir fyrstnefndu þættirnir, fjárhagsstaða fjárfestis og framtíðaráform um rekstur bankans, hlutfallslega mesta vægið af þáttunum fimm og jafnframt jafnmikið vægi.

Á fundi framkvæmdanefndar var síðasttalda atriðið, skilyrði af hálfu kaupenda, fellt niður sem sérstakt matsatriði áður en reiknilíkanið var sett upp. Þess má geta að Samson hafði sett mun ítarlegri skilyrði en hinir tveir bjóðendurnir um þætti sem gætu haft áhrif til lækkunar á lokaverði á hlut ríkisins í Landsbankanum.

HSBC var falið að gera næmnigreiningu á reiknilíkaninu en komst að þeirri niðurstöðu að henni lokinni að tilboð Samson væri það áhugaverðasta að því gefnu að miðað yrði við efri mörk þess verðbils sem fram kom í tilboði Samson, eða 3,90.

Í áliti sem HSBC vann fyrir framkvæmdanefndina um niðurstöðurnar úr reiknilíkaninu var lögð rík áhersla á að Samson yrði meðal annars gerð skýr grein fyrir því að boð sem væri lægra en efstu mörk tilboðs hans, 3,90, yrði ekki talið viðunandi fyrir ríkið.

Framkvæmdanefndin lagði niðurstöðurnar fyrir ráðherranefndina án þess að gera tillögu um hvaða tilboði skyldi tekið. Í kjölfarið tók ráðherranefndin þá ákvörðun að á grundvalli mats HSBC skyldi Samson boðið til beinna viðræðna um kaup á hlut ríkisins í Landsbankanum.

Næstu þrír kaflar eru nánast orðréttir úr úttekt Sigríðar Daggar Auðunsdóttur.

 Steingrímur Ari sagði sig úr nefndinni

Eftir ákvörðun ráðherranefndarinnar var framkvæmdanefndinni falið að ganga frá bréfi þar að lútandi. Skoðanaskipti urðu um orðalag bréfsins og lagði einn nefndarmanna, Steingrímur Ari Arason, áherslu á að í bréfinu yrði sett ákveðið lágmarksverð á hluta ríkisins líkt og HSBC hefði mælt með. Aðrir nefndarmenn vildu ekki fallast á tillögu hans og sögðu að tillaga þeirra, sem síðan varð ofan á, tryggði efnislega það sem Steingrímur Ari vildi segja svart á hvítu, að gengið væri til viðræðnanna með því skilyrði að ekki yrði samið um lægra verð á hverjum hlut en 3,90, sem voru efri mörk verðtilboðs Samson.

Næsta dag, hinn 10. september 2002, sagði Steingrímur Ari sig úr framkvæmdanefnd með bréfi til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Bréf Steingríms Ara var svohljóðandi:

„Í framhaldi af þeirri ákvörðun ráðherranefndar um einkavæðingu að ganga til viðræðna við Samson ehf. um kaup á umtalsverðum hlut í Landsbanka Íslands hf. hef ég ákveðið að segja mig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu.

Ástæðan eru þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í aðdraganda þessarar ákvörðunar og hafa nú leitt til þess að aðrir áhugasamir kaupendur eru sniðgengnir þrátt fyrir hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða. Ég hef setið sem fulltrúi fjármálaráðherra í framkvæmdanefnd um einkavæðingu frá árinu 1991 og aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum.

Þar sem ég er bundinn trúnaði um einstaka þætti þessa máls treysti ég því að óhlutdrægur aðili verði fenginn til að fara ofan í saumana á þeim vinnubrögðum sem eru orsök afsagnar minnar.“

Í greinargerð Ríkisendurskoðunar um Landsbankasöluna frá því í október 2002 kemur fram það samdóma álit fjárfestanna þriggja, Kaldbaks, S-hópsins og Samson, að ekki hafi verið staðið nægilega faglega að verki við söluna. Söluferillinn hafi verið óskýr nánast allan tímann og sömuleiðis markmiðin sem voru að baki. Fjárfestunum þremur hafi fundist að ekki hafi verið fullljóst í upphafi í hvaða farveg málið færi heldur hafi ferlið jafnvel að einhverju leyti verið spunnið eftir því sem á leið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: