- Advertisement -

Fullkomið tilgangsleysi borgarstjórnar

Það er nánast dapurt að lesa fundargerðir borgarstjórnar. Hvað sem fulltrúar minnihlutaflokkanna segja eða leggja til er skotið á kaf samstundis. Annað hvort á fundinum sjálfum eða mál eru send á líknardeildir borgarappartsins.

Hér má lesa fundargerð síðasta fundar borgarstjórnar.

„Eftir svona fund þar sem allar tillögur okkar í minnihlutanum er slátrað með stæl er maður einfaldlega í tilfinningalegu uppnámi, allt frá því að upplifa reiði yfir í vonleysi,“ sagði Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, í frétt sem birtist hér á Miðjunni í gær.

Dagur fær orðið

Stórmerkilegt er að horfa á fundina í beinni útsendingu. Eftir nánast hvert erindi minnihlutafulltrúa stendur borgarstjóri upp og leggur til að málinu verði vísað til sín eða þess hluta apparatsins þar sem hann er með lögsögu.

Dagur borgarstjóri og hans fólk. Yfirráð Dags yfir flokkunum fjórum virðist vera algjört.

Hér er eitt lítið dæmi frá síðasta fundi. Kolbrún Baldursdóttir lagði til að leikskólar sem og grunnskólar verði svokallaðir „grænfánaskólar“ vegna aðkomu að umverfisvitund. Meirihlutinn brást við og bókaði: „Það þurfa ekki allir skólar að vera grænafánaskólar til að ná markmiðum aðalnámskrár um umhverfisfræðslu.“

Ekki einu sinni er tekið undir jafn saklaust og ópólitískt mál sem þetta. Núverandi borgarmeirihluti virðist hafa Davíð Oddsson sem lærimeistara, það er að vera á moti hverju og einu sem pólitiskir andstæðingar leggja fram. Hverju og einu.

Þetta er alvara

Auðvita er þetta alvarlegt mál. Það er ekki annað hægt en að vitna aftur til Dags og þeirra atkvæða sem hann ræður í borgarstjórn. Sanna Magdalena lagði til að borgin sýndi frumkvæði og hyrfi frá láglaunastefnunni sem hefur verið fylgt lengi. Þá bókuðu Dagur og hans fólk einum rómi: „Ekki eru fordæmi fyrir því á nýliðinni öld að borgarstjórn hafi einhliða úrskurðað um laun starfsmanna sinna ef frá er talinn Gúttóslagurinn árið 1932.“

Þetta er ekki einu sinni fyndið.

Einræði Dags

Mesta undrun vekur að nýja fólkið í meirihlutanum, það er Viðreisn sem og báðir fulltrúar Pírata, skuli samþykkja að ganga til varnar alls þess sem er og hefur verið. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa ekki sýnt sjáfstæðan vilja. Þau hafa gengið eins fullkomlega í lið Dags borgarstjóra, og hægt er að gera. Þau hafa afsalað honum atkvæðum sínum og vilja.

Með þessu er borgarstjórn handónýtt stjórnvald. Lýðræðið er fótum troðið og með framgöngu meirihlutans má segja að í Reykjavík sé einræði Dags B. Eggertssonar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: