- Advertisement -

Grálúða fyrir 183 milljónir króna

Sjávarútvegur „Frystitogarinn Barði kom til hafnar í Neskaupstað á sunnudagskvöld að aflokinni afar vel heppnaðri veiðiferð. Skipið hélt úr höfn eftir sjómannadag og var ætlunin að veiða úthafskarfa. Karfinn lét hins vegar hvergi á sér kræla og því var haldið til lands að viku liðinni og skipið undirbúið fyrir grálúðuveiðar austur af landinu,“ segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

„Sannast sagna gengu veiðarnar á grálúðunni vel og millilandaði Barði um miðjan júní. Skipið kom síðan til löndunar að aflokinni veiðiferðinni á sunnudagskvöld eins og fyrr greinir. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra er hér um að ræða einn albesta túrinn í sögu frystitogarans og áhöfnin afar sátt við veiðiárangurinn. Aflinn í veiðiferðinni var um 340 tonn upp úr sjó og nemur verðmæti aflans um 183 milljónum króna.

Barði mun halda til veiða á ný á föstudag og er þá reiknað með að sótt verði í makríl, en útgefinn makrílkvóti skipsins er um 1000 tonn.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: