- Advertisement -

Haldið kjafti og hunskist heim

„Myndum við sætta okkur við það í nokkru öðru máli að þau sem málið snertir, láglaunafólk í þessu tilfelli, myndi hvergi birtast í meginstraumsfjölmiðlum.“

Gunnar Smári skrifar: Þau sem stigið hafa fram á undanförnum dögum og varað við kröfum láglaunastéttanna eru öll á ágætum launum; sum eru með um milljón á mánuði, önnur nær tveimur og mörg með mun hærri laun (forstjórarnir hafa nú bæst í hópinn og rífa upp meðaltalið). Ég held ég geti fullyrt að enginn með minna en þreföld lágmarkslaun hafi stigið fram til að lýsa yfir að kröfur láglaunafólksins væru sturlaðar (nema kannski grey Hörður Ægisson leiðarahöfundur Fréttablaðsins, sem fékk yfir sig mestar skammirnar).

Þessi staða, að betur sett fólk, blint á forréttindi sín, vilji draga úr mannréttindakröfum veikar settra hópa (kjarabarátta láglaunafólks sem fær lægri laun en duga til framfærslu er mannréttindabarátta) er alkunn. Þegar konur krefjast virðingar og réttar stiga fram karlar til varnar eigin forréttindum. Á sínum tíma, blessunarlega sjaldgæfara á seinni tímum, mótmælti gagnkynhneigt fólk réttindakröfum samkynhneigðar, ófatlaðir kröfum hinna fötluðu, rígfullorðnir kröfum ungdómsins o.s.frv.

Það sem er skrítið við þessi harmakvein elítunnar, sem býr við fjárhagslegt og félagslegt öryggi og hefur á undanförnum árum tekist að svínbeygja mannréttindabaráttu láglaunafólksins undir sig; er að það ratar á forsíður dagblaðanna og í fyrstu fréttir sjónvarps- og útvarpsstöðvanna. Röflið í körlunum yfir kvennahreyfingunni hefur blessunarlega verið vísað til sætis í virkum í athugasemdum; en hvers vegna fær þá hneykslun betur settra yfir kröfum láglaunafólks ekki að vera þar einnig, þar sem hún á heima?

Myndum við sætta okkur við það í nokkru öðru máli að þau sem málið snertir, láglaunafólk í þessu tilfelli, myndi hvergi birtast í meginstraumsfjölmiðlum en okkur væri þess í stað boðið upp á endalausar vandlætingar þeirra sem þekkja ekki til stöðu þessa hóps og telja sig þurfa að verja eigin stöðu með því að hafna kröfum hans? Ekki myndum við sætta okkur við linnulausar fréttir um stöðu kvenna þar sem engin kona tæki þátt. Það ástand heitir Saudi Arabía. En láglaunafólk á Íslandi lifir í sinni Saudi Arabíu, býr við vond kjör og lítinn rétt en fær ekki að taka þátt í umræðunni um stöðu sína. Þarf að hlusta endalaust á fólk úr öðrum samfélagshópum ræða um hvort það sé í raun ráðlegt að konur fái að keyra bíl.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Kannski er kominn tími til að kjarabarátta hinna verst settu taki mið af mannréttindabaráttu undirsettra hópa á liðnum áratugum og segi: Ekkert um okkur, án okkar. Haldið þið kjafti, þið sem ekkert vitið um hvernig það er að lifa af 300 þúsund krónum í landi dýrtíðar og húsnæðisokurs, haldið þið kjafti og hunskist þið heim.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: