- Advertisement -

Heimavellir selja ofan af 18 fjölskyldum

En hafi Heimavellir skömm fyrir að koma svona fram við leigjendur sína til margra ára!

Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Vilhjálmur Birgisson:
Það sorglegasta í þessu öllu saman er að leigumarkaðurinn á Akranesi er gjörsamlega botnfrosinn.

Það er óhætt að segja að leigufélagið Heimavellir hafi sent íbúum að Holtsflöt 4 hér á Akranesi afar hryssingslegt,nöturlegt og siðlaust bréf í upphafi nýs árs. En þann 6. janúar síðastliðinn fengu allar 18 fjölskyldur að Holtsflöt 4 sem sumar hverjar hafa leigt af Heimavöllum um langt skeið tilkynningu um að Heimavellir hafi selt allar íbúðirnar í einum pakka. Í tilkynningunni frá Heimavöllum kom fram að leigusamningar hafi verið seldir með, en nú hefur komið í ljós að nýju eigendurnir hafa ekki í hyggju að leigja þær áfram heldur fara þær allar í sölu.

En margir þeirra hafa leigt hjá Heimavöllum frá upphafi.

Áður en ég held áfram þá vil ég taka það fram að ekkert er við nýja eigendur að sakast, enda áttu þeir einungis í viðskiptum við Heimavelli með það að forgrunni að selja allar eignirnar.

Nú hefur komið í ljós að þrjár fjölskyldur eru með tímabundna leigusamninga sem renna út 31. mars næstkomandi eða eftir rúma 2 mánuði og eru þessar fjölskyldur eðlilega í fullkomnu uppnámi vegna sinnar stöðu. Aðrir leigusamningar renna síðan út margir hverjir á næstu mánuðum.

Hér eru 18 fjölskyldur sem eru að missa grunnstoð sína sem er að hafa þak yfir höfuðið, en heildarfjöldi þeirra sem búa í þessum 18 íbúðum eru um 60 manns.

Það er ömurlegt og gjörsamlega siðlaust að félag eins og Heimavellir sem keyptu íbúðir hér á Akranesi m.a. af Íbúðalánasjóði á sínum tíma og það á sérstökum sérkjörum skuli voga sér að skilja „viðskiptavini“ sína eftir í svartholi óvissunnar. En margir þeirra hafa leigt hjá Heimavöllum frá upphafi.

Það er með hreinum ólíkindum að Heimavellir skuli ekki hafa séð sóma sinn í því að upplýsa sína leigjendur í tíma um áform sín þannig að þeir hefðu meiri tíma en rúma tvo mánuði til finna fjölskyldum sínum þak yfir höfuðið. Eða að tryggja með afgerandi hætti betri réttarstöðu þeirra sem hafa verið leigjendur hjá Heimavöllum um langahríð þegar gengið var frá sölu á þessum 18 íbúðum. Ekkert af þessu var gert og eru því 18 fjölskyldur skildar eftir nánast bjargarlausar „örfáum mínútum“ áður en þau eiga að tæma íbúðirnar!

…keyptu íbúðir hér á Akranesi m.a. af Íbúðalánasjóði á sínum tíma og það á sérstökum sérkjörum…

Það sorglegasta í þessu öllu saman er að leigumarkaðurinn á Akranesi er gjörsamlega botnfrosinn, enda segir það sig sjálft þegar einn af stærstu leiguaðilunum hér á Akranesi hefur tekið ákvörðun um að selja nánast allar sínar leiguíbúðir og hætta starfsemi eins og Heimavellir hafa nú gert.


Ég og bæjarstjórinn á Akranesi áttum fund með nýjum eigendum í vikunni þar sem við fórum yfir stöðuna, en ekki er við þá að sakast, enda liggur fyrir að þeirra viðskiptamódel gerir ráð fyrir því að selja sem flestar íbúðir hratt og vel.

Ég hef haft samband við Heimavelli og gert alvarlegar athugsemdir við þessu vinnubrögð og það má vera að þau standist húsaleigulögin en eitt er víst að þessi vinnubrögð eru gjörsamlega síðlaus með öllu.
Þessi staða sýnir mikilvægi þess að skerpa þurfi enn frekar á húsaleigulögunum sem ég veit að verið er að gera og hef ég m.a. komið þessari ömurlegu stöðu íbúa að Holtsflöt 4 á framfæri við félagsmálaráðherra.

Ég veit að bæjarstjórinn á Akranesi hefur eins og ég gríðarlegar áhyggjur af þessari stöðu sem upp er komin hjá íbúum að Holtsflöt, enda liggur fyrir að leiguíbúðir á Akranesi liggja ekki á lausu og því er staða þessa fólks ömurleg í alla staði og vonandi finnst í samráði við bæjaryfirvöld einhver lausn á þessu máli.

En hafi Heimavellir skömm fyrir að koma svona fram við leigjendur sína til margra ára!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: