- Advertisement -

Hrokafullt ráðafólk sem sekkur í pytt

Þessi fundur eru í raun kennslubók um yfirvald í lýðræðisríki, sem sækir umboð sitt til almennings.

Gunnar Smári skrifar:

Þríeykið góða: Þórólfur Guðnason, Alda Möller og Víðir Reynisson.

Munurinn á kynningarfundum sóttvanaryfirvalda og ríkisstjórnarinnar eru sláandi. Þríeykið í sóttvörnunum reyndi að draga upp mynd af ógninni og fá almenning til að taka þátt. Þessi fundur eru í raun kennslubók um yfirvald í lýðræðisríki, sem sækir umboð sitt til almennings. Þríeykið sótti umboð sitt í sátt almennings, fór í raun aldrei lengra en almenningur var viljugur að gera. Í raun mætti segja að almenningur hafi stöðvað kórónavírusinn með því að ganga lengra en lagt var til; fólk dró meira úr samskiptum en fyrirskipanir sögðu til um. Við sáum andstæðu þessa á síðust vikum, þegar almenningur aflétti hömlum hraðar en lagt var til, en að er önnur saga. En það breytir því ekki að þríeykið lagði sig fram um að stýra í takt við vilja og væntingar almennings, hélt uppi opnu samtali en ekki aðeins einhliða skilaboðum; buðu upp á spurningar á hverjum fundi og reyndu með því að draga inn í ákvarðanir sínar og mat það sem fólk var að hugsa og velta fyrir sér.

Ríkisstjórnin gerir ekkert af þessu. Hún kemur fram til tilskipanir sem hún hefur soðið saman í bakherbergjum, án samráðs við aðra en hagsmunasamtök fyrirtækja- og fjármagnseigenda. Niðurstaða er að ekkert af aðgerðum ríkisstjórnarinnar virka. Ekkert brúarlán hefur verið veitt, enginn lokunarstyrkur, ekkert lán til smárra eða meðalstórra fyrirtækja, ferðastyrkurinn er flestum óskiljanlegur, hlutabótaleiðin var misnotuð, námsmenn gleymdust, leiðsögumenn, fátækir og fjöldi hópa sem kreppan og faraldurinn sló illa; stuðningur við fjölmiðla, listafólk og skemmtikrafta er enn í vinnslu. Ótti ráðherrana við að efna til opins samtals við fólk hefur leitt til þess að aðgerðir hennar eru illa grundaðar, sumar óframkvæmanlegar, aðrar missa marks og margar eru fastar í tilraunum embættismanna og þings til að smiða kerfið sem á að halda utan um þær.

Í lýðræði er það lýðurinn sem er gerandi.

Lýðræði er ekki eitthvað sem þú grípur aðeins til þegar aðstæður er góðar. Lýðræði er aðferð til að kalla fram sem besta niðurstöðu, alla vega niðurstöðu sem flestir geta sætt sig við (þ.e. niðurstöðu sem virkar í lýðræðislegu samfélagi). Þríeykið í sóttvörnum stundaði lýðræði en ríkisstjórnin ekki.

Við ættum að vera duglegri í að hampa lýðræði, gera kröfur um lýðræðisleg vinnubrögð í stað þess að óska þess að eitthvert fólk komi upp með sæmilega tæknilega lausn. Umræðan mætti snúast um aðferðir, ekki aðeins lausnir. Lýðræðið er nefnilega besta leiðin til að ná fram réttri tæknilegri lausn. Og í lýðræði er það lýðurinn sem er gerandi. Við eigum að hæla þríeykinu í sóttvörnum fyrir góða stjórnun en það var ekki þríeykið sem stöðvaði faraldurinn heldur lýðurinn. Eins og það var lýðurinn sem stoppaði Icesave-samningana, ekki forsetinn. Honum auðnaðist að stjórna í takt við vilja lýðsins, öfugt við ríkisstjórnina á þeim tíma.

Við ættum að þakka lýðnum oftar, byggja upp viðringu ráðafólks fyrir honum og virðingu lýðsins fyrir sjálfum sér. Hann hefur valdið og hann á að krefjast þess að halda valdinu hjá sér. Auðvitað er ágætt að eiga leiðtoga sem toga lýðinn að nýrri hugsun og góðum hugmyndum. En okkur vantar ekki leiðtoga eins og mikið og okkur vantar ráðafólk sem ber virðingu fyrir lýðnum og lýðræðinu og þjónar þessu. Núverandi ríkisstjórn er ekki þar. Hún er út í mýri, þar sem hrokafullt ráðafólk sekkur í pytt.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: