- Advertisement -

Hvað eiga aldraðir að bíða lengi?

Margir stjórnmálamenn telja, að allir eldri borgarar og öryrkjar hafi það ágætt!

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Hvað eiga lægst launuðu aldraðir og öryrkjar að bíða lengi eftir því að alþingi og ríkisstjórn hækki lífeyri þeirra þannig,að hann dugi til framfærslu? Ekkert bólar á aðgerðum.

Þessi hópur, sem aðeins hefur tekjur frá almannatryggingum og ekkert annað, engan lífeyrissjóð, getur ekki framfleytt sér; kemst ekki til læknis og getur ekki leyst út lyf sín nema með aðstoð ættingja eða hjálparstofnana. Er það ásættanlegt í þjóðfélagi,sem er með einn hæsta hagvöxt í Evrópu? Ég segi nei.

Þegar þetta er rætt við stjórnmálamenn segja þeir: Eru þetta ekki svo fáir einstaklingar, lítill hópur. Nei,svo er ekki. En þó svo væri væri það engin afsökun. Einn eldri borgari eða öryrki, sem ekki getur komist til læknis eða sótt lyfin sín er of mikið. Og ef sá hinn sami á ekki fyrir mat í lok mánaðar er verið að svelta hann! Þannig er ástandið hjá „velferðarríkinu“ Íslandi.

En hvers vegna er þetta vandamál ekki leyst? Erfitt er að svara því. Þessar ástæður eru helstar: Áhugaleysi, skeytingarleysi, og þekkingarleysi. Þekkingarleysið vegur þungt. Margir stjórnmálamenn telja, að allir eldri borgarar og öryrkjar hafi það ágætt!

Þeir átta sig ekki á því, að þeir verst stöddu lifa við fátæktarmörk (sultarmörk) Það er skammarlegt.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: