- Advertisement -

Hvenær verður nóg, nóg hjá þessum græðgispungum?

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, skrifar:

Það er engum vafa undirorpið að íslensku þjóðinni er stórkostlega misboðið vegna útboðs Íslandsbanka, en enn og aftur koma stjórnvöld og leggja út rauðan dregill fyrir yfirstéttarelítuna á kostnað almennings.

Það er sorglegt að sjá að stjórnvöld dekka upp allsnægtarborð fyrir marga sem voru leikendur og gerendur hrunsins með því að bjóða þeim að kaup á hlut í Íslandsbanka sem íslenska þjóðin á og það á „góðu“ undirverði.

En nú liggur fyrir að hluturinn var seldur á 117 krónur en í þetta skipti var 22,5% hlutur í Íslandsbanka seldur , en söluverð nam 52.650.000.000 milljörðum. Í dag stendur hluturinn í 128 krónum og hefur því hækkað um 9,4% sem þýðir að þessir 209 aðilar hafa hagnast á nokkrum dögum á kostnað almennings um 4.950.000.000, já takið eftir þeir hafa hagnast um tæpa 5 milljarða á örfáum dögum!

Með öðrum orðum þá eru stjórnvöld búin að gefa yfirsnobbelítunni tæpa 40 milljarða.

En rifjum líka upp söluna á Íslandsbanka frá því júní 2021 en þá seldu stjórnvöld 35% hlut í bankanum fyrir rúma 50 milljarða og var hver hlutur seldur þá á 77 krónur en í dag stendur hluturinn í 128 krónum sem þýðir að þeir sem tóku þátt í útboðinu í júní í fyrra hafa hagnast um 34 milljarða á tæpu einu ári.

Með öðrum orðum þá eru stjórnvöld búin að gefa yfirsnobbelítunni tæpa 40 milljarða með þessum gjörningi sínum og það aðilum sem báru ábyrgð á gríðarlegum hörmungum sem bankahrunið olli íslenskum heimilum.

Vill minna á að það kostaði skattgreiðendur um 450 milljarða að endurreisa fjármálakerfið á sínum tíma en núna eru þessir aðilar sem voru gerendur og leikendur í hruninu verðlaunaðir ríkulega með því að fá að kaupa hlut í bankanum með gríðarlegum afslætti!

Hvenær verður nóg, nóg hjá þessum græðgispungum? Eitt er víst að íslensk alþýða þessa lands hefur fengið nóg og núna er komin tími til að þeir sem bera ábyrgð á þessum gjörningi axli ábyrgð. Að selja eign þjóðarinnar með 40 milljarða ávinningi til handa þessum aðilum er einn risastór skandall!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: