- Advertisement -

HVERJIR TAKA SVONA ÁKVARÐANIR?

Svo fer allt á annan endann þegar birtast myndir af öldruðum sjúklingi í rúmi inni á salerni. Það er eins og þjóðin og ráðamenn viti ekki, að starfsfólk Landspítalans á í daglegri baráttu við að skapa rými fyrir veikt fólk í rúmum á deildum sjúkrahússins.

Árni Gunnarsson fyrrrverandi fréttamaður og alþingismaður.

Árni Gunnasson skrifar: Af einhverjum undarlegum og óútskýrðum ástæðum, var tekin um það ákvörðun, að troða niður nýrri viðbóta við Landspítalann á svæði þar sem daglega er einhver mesta umferð borgarinnar. Engin hugsun um efnisflutninga, hávaða, skort á bílastæðum, ferðir starfsmanna til og frá vinnu eða aðgengi sjúkrabíla.

Ekkert hugað að landrými þar sem unnt hefði verið að reisa fullkominn aðgerðaspítala og nýta þá Landspítala og ef til vill Borgarspítala fyrir langlegusjúklinga. Enginn áhugi á landinu kringum Vífilsstaði eða að Keldum. Og nú þegar nýtt sjúkrahótel er risið, þá berast þær fréttir, að það verði nýtt fyrir erlenda ferðamenn og kannski innlenda sjúklinga og aðstandendur.

Ekki nefnt að sjúkrahótelið verði nýtt til að losa um langlegurúm í gamla spítalanum.

Svo fer allt á annan endann þegar birtast myndir af öldruðum sjúklingi í rúmi inni á salerni. Það er eins og þjóðin og ráðamenn viti ekki, að starfsfólk Landspítalans á í daglegri baráttu við að skapa rými fyrir veikt fólk í rúmum á deildum sjúkrahússins. Myndin af konunni í rúmi inni á salerni er mynd af þeim veruleika, sem blasir við starfsmönnum nánast á hverjum degi.

Á sama tíma berast fréttir af einkasjúkrahúsi, sem auglýsir liðaðgerðir fyrir ca. 1,2 milljónir króna, sem sjúklingar greiða sjálfir. Með því að svelta heilbrigðiskerfið hefur stjórnvöldum tekist að greiða götu einkarekstrar, sem leynt og ljóst hefur verið stefnt að um langt skeið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: