- Advertisement -

Hvers vegna varð Sigmundur Davíð forsætisráðherra 2013?

Sigmundur Davíð og Bjarni.
Hamingjusamir foringjar árið 2013.

„Ég gæti trúað því að eftir 40 ár verði nemendur í kjarnakúrsi í samtímasögu í Háskólanum látnir glíma við ritgerðarefnið: hvers vegna varð Sigmundur Davíð forsætisráðherra 2013? Ekki í merkingunni hvers vegna tapaði vinstristjórnin og Framsóknarflokknum tókst að keyra á einföldum slagorðum í skuldamálum – heldur einfaldlega: hvers vegna varð Sigmundur forsætisráðherra en ekki Bjarni?“

Þetta skrifaði Stefán Pálsson sagnfræðingur. Stefán skrifar:

„Sjálfstæðisflokkurinn fékk rúm 50 þúsund atkvæði en Framsóknarflokkurinn rúm 46 þúsund atkvæði í kosningunum 2013. Veila í kosningakerfinu skilaði flokkunum jafn mörgum þingmönnum þar sem Framsókn fékk þingstyrk umfram kjörfylgi. Íhaldið var því óneitanlega stærri flokkurinn. Ef pólitík væri fótboltakeppni, hefði Sjálfstæðisflokkurinn vissulega orðið deildarmeistari. En pólitík er listhlaup á skautum og út frá því var Framsóknarflokkurinn krýndur „sigurvegari kosninganna“ af því hann bætti miklu meiru við sig en Sjálfstæðisflokkurinn í kosningunum.

Báðum hentaði ágætlega að eigna Ólafi heiðurinn að þeirri ákvörðun.

(Ég hef alltaf átt í smá vandræðum með þetta hugtak. Af hverju verða 46 þúsund atkvæði merkilegri en 50 þúsund fyrir það eitt að líklega voru fleiri úr fyrri hópnum sem kusu eitthvað annað síðast? Finnst okkur atkvæði sveimhuga fólks merkilegri en þeirra sem kjósa oftast það sama?)

Opinbera útgáfan var sem sagt sú að Ólafur Ragnar hafi tekið ákvörðunina. Hans hafi verið að úthluta stjórnarmyndunarumboðinu og hann hafi falið það Sigmundi Davíð sem sigurvegara kosninganna út á fylgisaukninguna miklu. Nokkrir Sjálfstæðismenn mögluðu yfir þessu, bentu á að þeirra flokkur væri sannarlega stærstur og eitthvað tuð heyrðist um meint dálæti forsetans á hinum unga formanni Framsóknar, sem hafi jafnvel minnt Ólaf á sjálfan sig á yngri árum. Minnst af þessu náði miklu flugi og í raun varð furðulítil umræða um þetta.

En stjórnarmyndunarumboð er ekki nisti, valdasproti eða jafnvel boðhlaupskefli – einhver áþreifanlegur hlutur sem forseti réttir einum stjórnmálamanni til varðveislu (þótt ansi margt fólk virðist sjá það þannig fyrir sér). Stjórnarmyndunarumboð er miklu nær því að vera hugtak eða frekar sundurlaust safn af hefðum og siðvenjum í tengslum við myndun ríkisstjórna. Við þekkjum úr stjórnarkreppum í gegnum tíðina að stjórnarmyndunarumboðið hefur gegnið flokka á milli en þegar lausn hefur fundist og kapallinn virðist ætla að ganga upp, þá skiptir ekki höfuðmáli hver er með stjórnarmyndunarumboðið í höndunum í það sinnið – viðkomandi skilar því einfaldlega inn og sá tekur við sem sátt er um sem forsætisráðherra. Hvorki Vigdís né Kristján Eldjárn krýndu forsætisráðherra og engum datt neitt slíkt í hug.

Þannig að aftur að ritgerðarverkefni sagnfræðinemanna árið 2060: þá verður væntanlega hægt að taka afstöðu til nokkurra misskemmtilegra greina í Skírni og Sögu um stjórnina 2013-16 og safaríkra minnisbóka Ólafs Ragnars sem verður búið að opinbera, sem ættu að gefa vísbendingar um hvort það var í raun forsetinn sem ákvað að gera Sigmund Davíð að forsætisráðherra eða hvort Bjarni og Sigmundur ákváðu það í fyrsta símtali, en báðum hentaði ágætlega að eigna Ólafi heiðurinn að þeirri ákvörðun.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: