- Advertisement -

Kaos á Keflavíkurflugvelli

Guðmundur Auðunsson skrifar:

Ísavía á að vera þjónustufyrirtæki rekið af ríkinu en svona hefur nýfrjálshyggjan og hfvæðingin farið með almannaþjónustuna.

Ég er nú að taka son minn í háskólanám til Bandaríkjanna. Við fjölskyldan mættum á flugvöllinn vel tímanlega (sem betur fer) síðastliðinn laugardag og bjuggumst við nokkurri örtröð. Margir voru í flugstöðinni, eins og við mátti búast yfir hásumarið, og töluverð röð eins og mátti búast við þar sem athuga þurfti að allir pappírar og Covid próf væru í lagi auk bólusetningarvottorða. Innskráningin í flugið gekk ágætlega en þá versnaði málið. Til að komast í gegnum öryggisskoðun þurftum við að standa í röð sem silaðist eins og snákur um neðri hæðina á flugstöðinni, upp stigann þar sem hún hélt áfram. Ég hef aldrei séð aðra eins röð. Svo þegar við komumst loksins að öryggisskoðuninni var helmingur skoðunarhliðanna lokaður!

14% atvinnuleysi í Reykjanesbæ, öryggisröð út úr dyrum í flugstöðinni og helmingur öryggishliðanna lokuð! Í Covid bylgju! Fólkið sem var að vinna við hliðið var hreint út sagt frábært. Vann undir mikilli pressu, pirraðir farþegar sem höfðu beðið með grímurnar í langan tíma í gífurlegri mannþröng þar sem margir óttuðust um að smitast í mergðinni. Ég spjallaði við einn starfsmanninn og hún sagði mér að þau væru illa undirmönnuð og gerðu sitt besta undir erfiðum kringumstæðum. Sem þau svo sannarlega gerðu. Ég gat ekki annað en lýst aðdáun minni á starfsfólkinu.

Aðra sögu er að segja af fyrirtækinu sem er ber ábyrgð á þessu. Eftir að Ísavía var OFH vætt (þ.e. gert að opinberu hlutafélagi) hafa senditíkur Sjálfstæðisflokksins komið sér fyrir í fyrirtækinu í gegnum Fjármálaráðuneytið, skammtað sér ofurlaun og læðist að manni sá grunur sumir ætli að komast yfir feitan bita í gegnum einkavinavæðingu. Læðist að manni sá grunur að verið sé að halda úti lágmarks þjónustu til að hægt sé að segja að einokunarfyrirtækið sé betur komið í höndum einkaaðila. Klassísk nýfrjálshyggjutaktík.

Ég legg það til að fyrirtækið verði aftur gert að ríkisstofnun.

Ísavía er í eðli sínu einokunarfyrirtæki sem á að sjálfsögðu að vera í ríkiseigu. Ísavía á að vera þjónustufyrirtæki rekið af ríkinu en svona hefur nýfrjálshyggjan og hfvæðingin farið með almannaþjónustuna. Í stað þess að ráða atvinnulaust fólk er Ísavía rekið eins og gróða fyrirtæki sem er verið að undirbúa einkavæðingu á til vildarvina. Ég legg það til að fyrirtækið verði aftur gert að ríkisstofnun þar sem lýðræðislegt aðhald eigi sér stað af almenningi. Þá er vel hægt að taka þá ákvörðun að frekar enn að halda uppi lélegri þjónustu sé atvinnulaust fólk á svæðinu þjálfað og ráðið til að halda uppi ásættanlegu þjónustustigi. Það kostar auðvitað eitthvað en betra fyrir fólk að hafa vinnu þar sem þess er þörf frekar en að vera á atvinnuleysisbótum. Vel má hækka komugjöld á flugvellinum til þess að bæta þjónustuna, ferðamenn hætta ekki að koma til landsins þó að flugmiðaverð hækki örlítið. Það er mun líklegra að ferðamenn fælist frá landinu við það að þurfa að bíða í langri röð í Covid faraldri vegna undirmönnunar á vellinum.

Höfundur skipar fyrsta sæti á J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðurkjördæmi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: