- Advertisement -

Kerfislega mikilvæg fyrirtæki eru ekki til

Blásum og „púum“ á hugmyndir um að almenningur eigi að gefa efnaðasta fólki landsins peninga. Það er nóg komið.

Ragnar Önundarson skrifar:

Enn heyrir maður rætt um „kerfislega mikilvæg fyrirtæki“. Þau eru ekki til. Það á að ræða um ,,kerfislega mikilvægan rekstur”, það er hann sem á að vernda. Það eru til aðferðir til þess, þess er skemmst að minnast frá hruninu, engum datt í hug að gefa hluthöfum fallandi banka peninga. Menn stofnuðu ný fyrirtæki, nýjar lögpersónur með nýjar kennitölur og vernduðu reksturinn þar.

Hlutafé og annað eigið fé fyrirtækja er svonefnt „áhættufé“. Fyrirtæki stunda áhættustjórn og kaupa tryggingar, en þá áhættu sem ekki fæst þakin þannig bera fyrirtækin sjálf með sínu áhættufé. Þeir sem stunda rekstur vita þetta og þeir ætla sjálfum sér ávinninginn, ekki öðrum. Þeir geta ekki vænst þess að geta gengið í sameiginlegan sjóð almennings eftir þörfum. Þess vegna þurfa stjórnmálamenn og embættismenn að kynna sér aðferðina. Gúgla má „hive-down“.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sagður „vinalaus“ en fékk afskrifaða 20 milljarða.

Í fjármálaráðherratíð Steingríms J. Sigfússonar eftir hrun flöskuðu menn illilega á þessu. Hlálegasta dæmið er auðvitað afskriftin fyrir manninn sem sagður er „vinalaus“, en reyndist það ekki, 20 milljarðar, sem hann notaði svo til að ná einu stærsta almenningshlutafélagi undir sig. Dæmin voru fjölmörg og m.a. þannig að skuldir fyrirtækja sem höfðu farið offari í skuldsetningu og eltingarleik við stærð og markaðshlutdeild urðu allt í einu betur stödd en keppinautar sem höfðu farið varlega.

Blásum og „púum“ á hugmyndir um að almenningur eigi að gefa efnaðasta fólki landsins peninga. Það er nóg komið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: