- Advertisement -

Konan mín vinnur á Landspítalanum

Viðhorf Konan mín vinnur á Landspítalanum og hefur gert nokkuð lengi. Nú er hún í sextíu prósent starfi. Hún þarf að vinna þriðju hverja helgi. Nú vann hún átta tíma vakt á föstudag, seinni vaktina, svo hún kom heim laust fyrir miðnætti á föstudag. Var síðan mætt fyrir klukkan átta á laugardagsmorgni og svo aftur í morgun, sunnudag.

Það er búið að loka nærliggjandi deild með auknu álagi á deildina hennar. Meiri vinna, meiri hlaup, sama kaup. Stundum er undirmannað. Því fylgja meiri hlaup, fleiri sjúklingar, meira erfiði. Sama kaup. Konan mín er ekki týpan sem stendur upp á fundum og lætur í sér heyra. Stundum talar hún um þetta heimafyrir. Ekki oft, en stundum. Þá koma rökin, sum alveg frábær. Og auðkeypt.

Hvers vegna 2,8 prósenta launahækkun, tíundi hluti þess sem kennarar fengu? Tíundi hluti. Fengu þeir leiðréttingu? En hvað um starfsmenn sjúkrahússins sem hafa aldeilis setið eftir? Á að leiðrétta þeirra laun?

Og þegar í ljós kemur, að hvernig sem konan mín reynir í sinni vinnu, á hún aldrei möguleika á að vinna sér inn laun varamanns í stjórn Bláa lónsins, fyrir að sitja, endurtek sitja, einn fund í mánuði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þó ég nefni konuna mína á þetta alls ekki frekar við um hana en allar hinar konurnar, konurnar því það er nefnilega undantekning ef karlar fara í þessi störf.

Án þess að vita grunar mig að meðalaldur starfsmanna í sumum stéttum hækki ört. Að ungt fólk, sem kannski er áræðnara og hefur fleiri möguleika, leiti í önnur störf. Það er ekkert grín að sjá að varamaður í stjórn fyrirtækis fái hærri laun, jafnvel fyrir að sitja einn fund í mánuði, en kona sem hleypur um ganga, sinnir veiku fólki og gengur þannig hratt á eigið þrek. Líkamlegt og andlegt.

Sé þetta rétt mynd sem ég dreg hér upp er alvara á ferðum. Þið sem ráðið, gerið eitthvað.

e.s. vil taka fram að konan veit ekki að ég er að skrifa þetta og ég er viss um að hún þakkar mér ekki fyrir.

Sigurjón Magnús Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: