- Advertisement -

Lífróður Framsóknar og Sigurðar Inga

Flokkurinn hans er illa undir í baráttunni við Miðflokkinn. Sigurður Ingi veit að Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, getur ýtt honum fram af sviðinu þegar hún vill.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, kom á óvart í dag. Hann hélt ræðu, á fundi Framsóknar, og rifjaði þar upp hörð átök við Bjarna Benediktsson frá árinu 2015. Þá beitti Bjarni neitunarvaldi þegar Sigurður Ingi lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Bjarni vildi verja stöðu útgerðarinnar. Þá sem nú.

Sigurður Ingi kýs að rifja upp eigin niðurlægingu á sama degi og þúsundir koma saman til að krefjast afsagnar Kristjáns Þórs Júlíussonar. Vegna spillingar.

Sigurður Ingi, sem er í afar erfiðri stöðu, virðist ætla að nýta sér bága stöðu Sjálfstæðisflokksins. Það getur verið tvíbent sverð. Miðflokkurinn bíður tækifæris. Ögri veikur Framsóknarflokkur veikum Sjálfstæðisflokki er víst að öllum brögðum verður beitt. Þá verða hörð pólitísk átök.

Sigurður Ingi þarf að verjast víða. Flokkurinn hans er illa undir í baráttunni við Miðflokkinn. Sigurður Ingi veit að Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, getur ýtt honum fram af sviðinu þegar hún vill. Hann verður því að leika réttu leikina. Hafi hann á annað borð vilja til þess.

Í dag ýtti hann af stað stórum steini. Hvert það leiðir hann og Framsóknarflokkinn er óvíst. Trúlegast er að Sigurður Ingi hafi séð að hann gat ekki setið aðgerðarlaus lengur. Hvort hann hafi leikið rétta leiknum er hins vegar ekki víst. Það er ekki tilviljun að hann velji að rifja upp harða afstöðu Sjálfstæðisflokksins með sægreifunum í dag. Daginn sem fólk fyllti Austurvöll til að mótmæla einmitt því.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: