- Advertisement -

Minnsta aflaverðmæti en mesti hagvöxtur

- sýnir minna vægi sjávarútvegs í þjóðarhag Íslands

Á síðasta ári gerðist það að aflaverðmæti íslenskra skipa var óvenju lágt, hefur ekki verið lægra síðan árið 2010. Aflaverðmæti dróst saman milli áranna 2015 og 2016 um meira en tólf prósent.

Á síðasta ári gerðist það einnig að hagvöxtur var meiri en spáð var og það sem meira er, raunverulegur hagvöxtur hefur ekki verið hærri á einu ári, eða meira en sjö prósent.

Aldrei áður

Þrátt fyrir hálfgert hallæri sjávarútvegsins jukust útflutningstekjur okkar um meira en ellefu prósent. „Útflutningur jókst um 11,1% á sama tíma og innflutningur jókst um 14,7% og dró utanríkisverslun úr hagvexti þrátt fyrir 158,8 milljarða króna afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári. Útflutningur þjónustu nam 26,8% af landsframleiðslu á árinu 2016 og er þetta í fyrsta skipti frá því að gerð þjóðhagsreikninga hófst árið 1945 sem tekjur af útfluttri þjónustu mælast hærri en af vöruútflutningi,“ segir á vef Hagstofu Íslands.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Krónan

Á sama tíma segir á vef Fiskistofu: „Aflaverðmæti íslenskra skipa á öllum veiðisvæðum nam 133 ma. kr. í fyrra og dróst saman um 12,1% frá fyrra ári. Samdráttinn má að langmestu leyti skrifa á gengisþróun krónunnar en gengisvísitala krónunnar lækkaði um 10,6% milli ára.“

Hvar er hallærið?

Þessar staðreyndir, að þrátt fyrir drjúgan samdrátt tekna þjóðarbússins af sjávarútvegi, sést þess ekki stað í samfélaginu. Ferðaþjónustan er það mikil búbót að hún yfirskyggir aðrar atvinnugreinar.

Hagvöxtur er mikill, kaupmáttur eykst, fjárfesting jókst um 22,7% á síðasta ári. Umtalsverð aukning var í fjárfestingu atvinnuveganna, eða 24,7% og sömuleiðis í íbúðafjárfestingu, eða 33,7%. Á sama tímabili jókst fjárfesting hins opinbera um 2,5%.

Ekki samneyslan

Samt er það ekki svo að allsstaðar sé aukning þrátt fyrir magnaða stöðu. Hagstofan segir: „Sem hlutfall af landsframleiðslu var samneysla 23,1% á liðnu ári sem er heldur lægra en undanfarin ár. Á árabilinu 2010-2015 var hlutfallið 24,3% að meðaltali en frá árinu 1996 hefur hlutfall samneyslu af landsframleiðslu verið 23,3% að meðaltali.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: