- Advertisement -

Of stórt til að falla?

Ólafur Haukur Símonarson skrifaði:

Ólafur Haukur Símonarson:
Er ekki „kerfislæga mikilvægt“ að leggja Flugfélaginu Ernir lið svo það merka fyrirtæki geti áfram sinnt því hlutverki sem Icelandair guggnaði á, að tryggja flugsamgöngur hér innanlands?

Of stórt til að falla, er gamall frasi úr viðskiptalífinu; þá er talað um stórt fyrirtæki sem hefur hreðjatak á ríkisvaldi viðkomandi lands. Nýrri útgáfa af því sama sem nú er notuð óspart hér heima: „Kerfislæga mikilvægt“ fyrirtæki sem ekki má falla. Gamla klassísk skýringin: Fyrirtækið (einstaklingurinn) skuldar svo mikið að bankinn/lífeyrissjóðinn gæti farið á hliðina ef fyrirtækið fellur – þess vegna verður ríkisvaldið að koma að málinu með björgunarhring af einhverju tagi.

Það er andstyggilegt þegar einstaklingum eða fyrirtækjum í þröngri stöðu er mismunað varðandi fjárhagsleg örlög líkt og gerðist í bankahruninu 2008; og nú virðist sagan ætla að endurtaka sig með svipuðum hætti. Icelandair er dæmi um „kerfislæga mikilvægt“ fyrirtæki, þó svo það hafi um langa hríð verið illa rekið og í sínum hrunadansi orðið bert að því að koma fantalega fram við starfsmenn sína sem í raun eru eina kapítal félagsins. „Icelandair er þjóðvegur okkar til meginlandsins,“ segir auglýsingadeild félagsins, líkt og flugmenn annarra fyrirtækja muni aldrei geta lært að lenda á Keflavíkurflugvelli. Persónulega hef ég flogið með vélum allmarga flugfélaga sem hafa auðveldlega getað lent og tekið á loft frá Keflavík og flugþjónar þessara félaga hafa kunnað brosa og fara með öryggisljóðin góðu alveg eins og íslenskir kollegar þeirra. Það er himinhvolfið, gott fólk, sem er þjóðvegurinn til og frá landinu; „sérleyfishafakerfið“ íslenska í loftsiglingum er til allrar hamingju jafn úrelt orðið og Samband íslenskra sláturleyfishafa. Rétt í lokin: Er ekki „kerfislæga mikilvægt“ að leggja Flugfélaginu Ernir lið svo það merka fyrirtæki geti áfram sinnt því hlutverki sem Icelandair guggnaði á, að tryggja flugsamgöngur hér innanlands?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: