- Advertisement -

Orkupakki 4: Erum „aftanívagn„ Noregs

Fleiri Orkupakkar þokast til okkar á EES-færibandinu.

Ragnar Önundarson skrifar:

„Betri er mögur sátt en feitur dómur,“ segja reyndir lögmenn stundum. Næsti Orkupakki, OP4 er handan við hornið. Sumum dettur í hug að best sé að leysa ágreiningsmál með því að „höggva á hnúta“, t.d. með þjóðaratkvæðagreiðslu. Sé efnt til slíks er aldrei fyrirséð hvernig það fer, eftir hræðsluáróður á báða bóga. Eftir stæði þjóðin klofin í herðar niður, annar hópurinn sigri hrósandi en hinn gnístandi tönnum og ófriðurinn héldi áfram, nú yrði það aðildin að EES sem yrði átakamálið, þó sátt sé um hana nú. Að þingið „valti yfir“ þjóðina eða flokkar „valti yfir“ flokksmenn sína hefur slæm áhrif. Mögur sátt er betri en feitur Salómonsdómur.

Vandi okkar felst í því að við aðildina að EES afsöluðum við okkur ekki bara sjálfsákvörðunarrétti um mikilvæg mál: Við samþykktum að gera mál lögbundin, innleiða þau, þó engin eða lítil umræða hefði farið fram, eins og gerist annars. Við erum líka núna fyrst að átta okkur á því að við erum bara „aftanívagn“ 17 sinnum fjölmennara ríkis, Noregs, sem leyfir okkur að hanga með, svo fremi sem við völdum þeim ekki vandræðum.

OP3 var afgreiddur án sáttar.

Þjóðin vill njóta þeirrar ódýru, hreinu orku sem henni hefur verið lofað í tengslum við sérhverja nýja virkjun, árum og áratugum saman, í hálfa öld. Samt samþykkti Ísland OP2 árið 2003, þ.e. að koma á ,,markaðsbúskap” í orkuframleiðslu og að rafmagn skuli vera „vara“, háð fjórfrelsinu. Fólk gerði sér ekki grein fyrir hvert var verið að leiða þjóðina. Í mikilvægustu málum okkar eigum við að móta okkar eigin stefnu, að loknum ítarlegum umræðum og fenginni bærilegri sátt. Þetta er afleiðing þess að við lofuðum ESB að elta löggjöf þess nánast í blindni. Þetta fyrirkomulag er eins konar „aukaaðild“ að ESB. Þessi lausn var td. ekki aðlaðandi fyrir Breta, þeir vildu fá löggjafarvaldið aftur til sín.

OP3 var afgreiddur án sáttar, bara af þeirri ástæðu að við lofuðum að gera það með aðildinni að EES. Þetta var ógæfuleg aðferð og vanhugsuð. Seint mun gróa um heilt. Fleiri Orkupakkar þokast til okkar á EES-færibandinu. Meðal þess sem við höfum lofað er að standa ekki í vegi tengingar við hinn stóra Evrópumarkað. Vindmyllugarðar og fjöldi smávirkjana í bergvatnsám samrýmast ekki þeirri ímynd landsins sem ferðaþjónustu hentar best. Hún er orðin aðalgjaldeyrisuppspretta landsins. Í stórvirkjunum jökulvatna felst mikil hagkvæmni og þær verða alltaf færri, eðli máls samkvæmt. Það sem gerir Ísland að góðum búsetukosti er öflugur sjávarútvegur, mikil og ódýr orka og svo fegurð ósnortinna víðerna, sem fæst fólk hefur aðgang að í mannmergð heimsins. Við verðum að halda vel á málum, betur en upp á síðkastið.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: