- Advertisement -

Öryrki fær aðeins 33.168 á mánuði

Öryrki sendir öllum þiingmönnum bréf og spyr um efndir loforða.

Kristinn Magnússon sendi eftirfarandi til allra þingmanna:

„Ágæti þingmaður.

Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga var nokkuð rætt um bága stöðu öryrkja vegna þeirrar staðreyndar, að örorkubætur ná ekki lágmarks framfærsluviðmiðum.
Það sem var þó mest rætt varðandi stöðu þessa hóps voru þær óréttlátu skerðingar, stundum kallað “krónu á móti krónu”, sem þessi lægst setti hópur þjóðfélagsins þarf að þola ef einhver innkoma kemur annars staðar frá.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Flestir ef ekki allir frambjóðendur og flokkar voru sammála um óréttlætið sem í þessu kerfi felst og lofuðu allir að láta sig málið varða þegar inn á þing yrði komið. Nú er mai næstum á enda og ekkert hefur verið gert.
Ástæða þess að ég skrifa þetta bréf nú er að í dag fengu öryrkjar sinn árlega glaðning, útreikning vegna ársins 2017. Þá kemur í ljós hverjir eiga að borga TR til baka vegna skerðingalöggjafarinnar sem þinn vinnustaður, Alþingi, hefur ákveðið.

Hér er mín saga til að hjálpa þér að glöggva þig á hvernig þessi lög, sem þú og þinn vinnustaður getið breytt, virka í mínu tilfelli:

Ég hef verið óvinnufær í 7 ár vegna sjúkdóms. Síðastliðin 3 ár hef ég verið í endurhæfingarúrræðum og fengið endurhæfingarlífeyri sem er 204.000 útborgaður á mánuði.
Um síðustu áramót var ljóst að ég yrði ekki vinnufær aftur í bráð og þ.v. sótti ég, í byrjun Janúar, um örorkubætur til TR. Sú umsókn varð til þess að ég fékk síðast greiddan endurhæfingalífeyri 1.febrúar.
Þar sem ég beið úrskurðar varðandi örorku mína leitaði ég til félagsþjónustu sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Þar voru svörin að vegna þess að ég er giftur, þá ætti ég rétt á 20.000 krónum til framfærslu, vegna tekna konu minnar. Rétt er að taka fram að konan mín er öryrki og fær vegna hjúskaparstöðu sinnar, 204.000 útborgað. Þessi mismunun er náttúrulega augljóst brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, en samþykkt af Alþingi.

Þegar loks kom niðurstaða frá TR varðandi örorkuumsókn mína var niðurstaðan sú að ég, algjörlega óvinnufær, er metinn með 50% örorku, og fæ því 33.168 kr á mánuði til framfærslu!
Þar sem þessi niðurstaða dugði ekki til að hrekja mig í sjálfsmorð, þá er reynt að reka endahnútinn á það ætlunarverk með bréfinu sem mér barst í dag. Þar kemur fram að ég skuldi TR 480.000 sem mér beri að greiða til baka innan 12 mánaða. Hvernig ég á að fara að því með mínum 33.168 kr á mánuði er mér hulin ráðgáta.

Þetta er sá raunveruleiki sem ég lifi við, sem ég geri mér grein fyrir að er fjarlægur þér, sem væntanlega þiggur yfir milljón á mánuði úr sama ríkissjóðnum og ég fæ 33.168 kr.

Því vil ég spyrja þig:

1. Ætlar þú persónulega að berjast fyrir því að þessum ólögum um almannatryggingar verði breytt strax, eins og lofað var af öllum flokkum fyrir kosningarnar á síðasta ári?
2. Munt þú beita þér fyrir að skerðingarnar sem öryrkjar búa við verði afnumdar með lögum á Alþingi, áður en þið farið í sumarfrí?
3. Ætlar þú að beita þér fyrir að hætt verði að mismuna fólki eftir hjúskaparstöðu innan almannatryggingakerfisins og hjá sveitarfélögum, sem er brot á stjórnarskránni?

Bréf þetta mun ég senda á alla þingmenn sem sæti eiga á alþingi. Einnig mun ég birta það opinberlega á Facebook og hugsanlega í fjölmiðlum. Ég vænti svars fyrir 10.júní en þá mun ég einnig birta hverjir hafa svarað mér og hugsanlega útdrætti úr svörum.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: