- Advertisement -

Páll Óskar: „Sniðgöngum Eurovision 2019“

Kæra RÚV. Nýtið þetta tækifæri og mótmælið með fjarveru ykkar / okkar Íslendinga. Þessu afneitunar-gleðipartíi tökum við ekki þátt í.

„Sniðgöngum Eurovision 2019. RÚV gæti gert margt frábært við peningana: Meira tónlistarefni, jafnvel okkar eigin íslensku lagakeppni, leikið efni sem og barnaefni á RÚV. Að sleppa einni Eurokeppni er lítið mál samanborið við þjóðarmorð Ísreals á Palestínu. Hver hefur geð á því að troða upp í Jerúsalem með yfirstandandi blóðbað hinum megin við vegginn? Ekki ég,“ skrifar Páll Óskar Hjálmtýsson á Facebook.

Færsla Páls Óskars er annars svona:

„Eins og ég elska Eurovision mikið, þá finnst mér litið mál – réttara sagt – hið besta mál að sitja hjá og sniðganga keppnina hjá þjóðum sem hafa gerst brotlegar við alþjóðalög og stunda mannréttindabrot og blóðuga stríðsglæpi næstum dag hvern. Og hafa gert síðustu 70 árin. Upplýsingar um sögu Ísraels flæða núna á gerfihnattaöld til fólks sem hefur kannski hingað til verið glórulaust um hve alvarlegt ástandið er á Gaza svæðinu. Ég var einn af þeim glórulausu. Ég hafði ósköp litla hugmynd um hvað væri í gangi þarna síðast þegar Íslendingar kepptu í Jerúsalem árið 1999.

Ímyndarherferð Ísraels er að koma í bakið á þeim. Við vitum betur. Eurovision bliknar og blánar í samanburði við yfirganginn, stjórnsemina og frekjuna sem sponsuð af Bandaríkjunum og nú á að fara í fegrunaraðgerð á ímynd Ísraels út á við með Eurovision. Svo ég vitni nú í Bjarna Karlsson: „Ég samhryggist gyðingum í Ísrael að hafa gengið gegnum árþúsunda höfnun og helför seinni heimstyrjaldar, án þess að öðlast þekkingu á friði en verða þess í stað nákvæm eftirlíking eigin óvina.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hér er kjörið tækifæri til að mótmæla fjöldamorðum Ísraelhers á Palestínu og setja Ísreal mörk á alþjóðavísu. Það var pínlegt að heyra þakkarræðu Nettu frá Ísrael fyrir lag sem var sprottið að hennar sögn úr #metoo byltingunni: „Thank you for choosing different, thank you for accepting differences between us, thank you for celebrating diversity.“

Væri Netta kannski til í að gera það sama milli Ísrael og Palestínu, í stað þess að taka sjálfsmynd af sér klædda í einkennisbúning Ísraelshers? Hver veit hverju hún tók þátt í á meðan hún gengdi herskyldu?

Kæra RÚV. Nýtið þetta tækifæri og mótmælið með fjarveru ykkar / okkar Íslendinga. Þessu afneitunar-gleðipartíi tökum við ekki þátt í. Skemmtiefni, dægurlög og glamúrgallar eru nefnilega víst bullandi pólitískt mál. Að reyna að aðskilja pólitík og skemmtiefni eða íþróttir er fyrirsláttur. Barnamorð er að mínu áliti komið út fyrir það að vera pólitík. Barnamorð er ómennska.

Sniðgöngum Eurovision 2019. RÚV gæti gert margt frábært við peningana: Meira tónlistarefni, jafnvel okkar eigin íslensku lagakeppni, leikið efni sem og barnaefni á RÚV. Að sleppa einni Eurokeppni er lítið mál samanborið við þjóðarmorð Ísreals á Palestínu. Hver hefur geð á því að troða upp í Jerúsalem með yfirstandandi blóðbað hinum megin við vegginn? Ekki ég.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: