- Advertisement -

Ragnar Þór hlustaði á ritstjóra Markaðarins

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar: Hlustaði á Hörð Ægisson ritstjóra Markaðarins í Fréttablaðinu ræða áhyggjur sínar af kröfum verkalýðshreyfingarinnar í morgunútvarpinu á Rás 2. Hann vildi meina m.a. að svigrúmið hafi verið til staðar fyrir samningana 2015 og að hátt vaxtastig á Íslandi væri óstöðugleika á vinnumarkaði að kenna.

Hann benti á kjarasamninga í Noregi sem væru hófsamir og þess vegna væri stöðugleiki þar og saknaði norræna samningamódelsins sem fráfarandi forysta í verkalýðshreyfingunni barðist svo fyrir og vísaði með því í viðtal við svokallaðan „verkalýðsforingja“ Guðmund Ragnarsson sem nýlega var hafnað af eigin félögum.

Mikið óskaplega hefði verið gott að fá Hörð fram á sjónarsviðið fyrir síðustu kjarasamninga þegar allt önnur sviðsmynd, ekki ósvipaðri og hann teiknar upp nú, var sett upp ef lægstu laun myndu hækka í 300 þús. Sviðsmynd sem svo varð víðs fjarri svartsýnustu mönnum.

Mikið saknaði ég Harðar þegar ákvarðanir kjararáðs tryggðu embættismönnum gríðarlegar hækkanir og það afturvirkar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Mikið saknaði ég þeirra sem hæst gagnrýna verkalýðsforystuna þegar forstjórar og æðstu stjórnendur atvinnulífsins tóku til sín hækkanir uppá margföld mánaðarlaun félagsmanna okkar á meðan stjórnir sömu fyrirtækja samþykktu ný og betrumbætt kaupaukakerfi.

Er ég alltaf að misskilja þetta Salek samkomulag? Var það bara hugsað til að ná böndum á launaskrið lægri og millitekjuhópa? Var íslenska útgáfan af Norræna samningamódelinu hugsað þannig að taka þarf launalið lægri og millitekjuhópa út fyrir sviga á meðan efsta lag samfélagsins skammtar sér og því litla sem eftir er geta hinir deilt sín á milli eftir „norrænni fyrirmynd“.

Ég sakna þess þegar ég hlusta á ábyrgar raddir meðaltala og samanburðar að taka til greina fleira en launaliðinn þegar þær hrósa norrænum stöðugleika og mikilvægi samkeppnishæfni fyrirtækja.

Eins og þá staðreynd að lífskjör á Íslandi þurfa líka að vera samkeppnishæf.

Eins og þá staðreynd að það kostar jafnmikið að leigja lítið raðhús í Þrándheimi í Noregi og lítið herbergi í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði í Reykjavík með aðgang að sameiginlegu klósetti og eldhúsi.

Eins og þá staðreynd að við borgum 75 til 80 þúsund krónum meira, Á MÁNUÐI, í vexti á íbúðalánum.

Eins og þá staðreynd að húsnæðisöryggi á Íslandi er 3 mánuðir.

Eins og þá staðreynd að stór hluti almennings hefur ekki efni á að veikjast.

Eins og þá staðreynd að stjórnvöldum og atvinnulífinu virðist vera drullusama um stöðugleika. Eða þangað til kemur að kröfum um að ná endum saman fyrir dagvinnulaun hjá fólki sem skapar hin raunverulegu verðmæti í samfélaginu.

Eins og þá staðreynd að ef við aukum ráðstöfunartekjur þeirra sem ekki ná endum saman mun það auka veltu fyrirtækja sem aftur geta brogað betri laun, ráðið fleira fólk, nú eða greitt sér meiri arð.

Er hægt að fara fram á ábyrgari umræðu þeirra sem hæst gala um að launahækkanir séu helsta ógn samfélagsins.

Ætlum við virkilega að trúa orðræðunni um að hærri laun jafngildi verri lífskjörum. Að lífskjör okkar versni ef við hækkum laun eða gerum kröfu um að geta lifað af þeim?

Really!!

Greinin er fengin af Facebooksíðu Ragnars Þórs,


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: