- Advertisement -

„Ríkisstjórnin hefur sýnt vilja sinn í verki“

Kolbeinn Óttarsson Proppe Vg skrifar um komandi kjarasamninga.

Nú líður að því að fjöldi kjarasamninga renni út og þá reynir af alvöru á samningsvilja. Ég hef áður lýst því yfir að mér finnist kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar metnaðarfull, sem er fínt; hennar starf er að ná sem bestum samningum fram fyrir sína félaga. Mér hefur þótt sérkennilegt að sjá þá orðræðu að markmið verkalýðshreyfingarinnar sé að setja allt á hliðina. Slíkt tal gagnast engum.

Ég held að það sé vel hægt að ná saman um raunverulegar kjarabætur, sérstaklega fyrir þau sem minnst hafa á milli handanna. Það á að vera metnaður hvers samfélags að við öll getum lifað mannsæmandi lífi. Nú er líka lag til að gera þannig breytingar á skatta- og bótakerfinu að þær komi sem best til móts við þau sem mest þurfa á að halda, eins og fyrstu skref hafa raunar þegar verið tekin í.

Ríkisstjórnin hefur sýnt vilja sinn í verki með ýmsum aðgerðum sem eru allt mikilvægar jöfnunaraðgerðir. Þar má nefna hækkun atvinnuleysisbóta, hækkun á greiðslum úr Ábyrgðarsjóði launa, hækkun barnabóta og fjölgun þeirra sem eiga rétt á þeim, hækkun á þaki á greiðslum í fæðingarorlofi fyrst úr 500 í 520 þúsund og nú um áramótin upp í 600 þúsund, leigufélag á vegum Íbúðalánasjóðs og margt fleira.

En betur má ef duga skal. Ég ber miklar væntingar til endurskoðunar á tekjuskattkerfinu og samspili þess við bótakerfin. Það ætti vel að vera hægt að semja um raunverulegar kjarabætur og sanngjarnara skatt- og bótakerfi sem gagnast okkur öllum. Það er réttlætismál.

Tekið af Facebooksíðu þingmannsins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: