- Advertisement -

Ríkisstjórnin ófær um að falla

- merki eru um vaxandi ósætti meðal „ábekinga“ ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar. Kjósendur hafna ríkisstjórninni og litlu flokkunum báðum.

Davíð Oddsson og Bjarni Benediktsson. Davíð leynir ekki vonbriðgum sínum með Bjarna og ríkisstjórnina hans.

Fréttaskýring Víst er að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar þarf að hafa talsvert fyrir lífi sínu. Þess sjást augljós merki hér og þar. Eitt þeirra má lesa um í Morgunblaði morgundagsins. Þar skrifar Davíð Oddsson. Það er sama hvaða skoðun fólk kann að hafa á Davíð, hann er leiðandi meðal margra flokksfélaga í Sjálfstæðisflokki.

Meira að segja þingmenn litlu flokkanna, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, eru hugsi yfir stöðu flokka sinna og leita svara við spurningunni um hvað flokkarnir hafi gert til að verðskulda þá stöðu sem þeir búa við. Engar fréttir er um hvort þeir hafi fundið svar eða svör.

Stjórn um ekki neitt

Ríkisstjórnin mælist aðeins með 32 prósenta stuðning, eftir aðeins hálfs árs stjórnarsetu. Sem er auðvitað afar sérstakt. Jafnvel einstakt.

„Það er dálítið skrítið að ríkisstjórninni skuli refsað svo hart í mælingum. Fyrir hvað?“ Þannig spyr Davíð í Reykjavíkurbréfi morgundagsins.

Davíð hefur kvittað upp á, eða samið, fleiri stjórnarsáttmála en aðrir núlifandi Íslensdingar. Hann hefur eðlilega lesið stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.

„Þegar stjórnarsáttmáli hennar er lesinn kemur fram að hún hefur einsett sér að gera helst ekki neitt. Það er ekki auðvelt að benda á ríkisstjórn sem hefur fylgt sínum sáttmála betur eftir frá upphafi sínu. Það auðveldar henni staðfestuna að fátt er haldfast í þessum sáttmála ef frá er skilinn nokkuð ákveðinn rammi um það hvernig megi fjölga innflytjendum á Íslandi verulega á sem skemmstum tíma.“

Stefnt að upplausn

„Það sem kemst næst því að hafa eitthvert hald í þessum undarlega sáttmála er að gefið er til kynna að ríkisstjórnin stefni að því að setja Evrópumál í upplausn þegar lok kjörtímabils nálgast,“ skrifar Davíð. „Þessi leiðarvísir er að vísu mjög þokukenndur en helst er að skilja að það uppnám sem sáttmáli ríkisstjórnarinnar boðar verði ekki á sameiginlega ábyrgð hennar!“

Þrátt fyrir óánægju með ríkisstjórnina, gerir forsætisráðherrann fyrrverandi ekki ráð fyrir að stjórnin sé að falla: „Einhverjir spyrja sig og aðra, með hliðsjón af fallandi stuðningi, hvort þessi ríkisstjórn sé við það að falla. En það er með öllu óvíst að hún sé fær um það. Ríkisstjórn, sem samkvæmt sameiginlegum sáttmála sínum stendur ekki fyrir neitt, á ekki auðvelt að finna sér mál til að falla á. Meira að segja þegar hún mætir með sín allra vitlausustu mál fyrir þingið mun stjórnarandstaðan taka þeim fagnandi. Ríkisstjórn sem telur að það bendi til þess að hún sé á réttri leið hefur týnt áttavitanum sem hún fékk í fermingargjöf.“

Styrmir Gunnarsson. „Þótt Sjálfstæðisflokkur hafi tapað um fjórðung fylgis síns frá fyrri tíð er það ekki rætt á vettvangi flokksins.“

Baklandið að bresta

„Þótt Sjálfstæðisflokkur hafi tapað um fjórðung fylgis síns frá fyrri tíð er það ekki rætt á vettvangi flokksins,“ þannig skrifar Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritsjóri á vefsíðu sína, styrmir.is.

Víst er að bakland ríkisstjórnar sé að bresta. Þolinmæðin virðist vera á þrotum. Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins í mars 2009. Kosningarnar áður, þ.e. 2007 fékk flokkurinn 36,6 prósent. Í fyrstu kosningum Bjarna, í apríl 2009 fékk flokkurinn 23,7 prósent, sem er versta útkoma flokksins frá upphafi, og 2013 fékk flokkurinn 26,7 prósent sem er önnur versa útkoma flokksins og í fyrra féll flokkurinn 29 prósent.

Bjarni er formaður mun minni flokks en Davíð var á sínum tíma. Ekkert bendir til að Bjarna takist að ná flokknum til fyrri stærðar.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: