- Advertisement -

Róttæk vinstri stefna vann sigurinn

Svavar Gestsson, fyrrum ráðherra og formaður Alþýðubandalagsins, er meðal þeirra sem hafa tjáð sig um koningarnar í Bretlandi.

„Það er mikilvægt að halda því til haga að sigur Verkamannaflokksins á að miklu leyti rætur að rekja til róttækrar stefnu. Hann þorði að setja fram tillögur um hærri skatta á þá ríkustu og sýndi fram á hvernig ætti að nota þá fjármuni,“ skrifar Svavar á Facebook.

„Tillögur flokksins voru ábyrgar og fjármagnaðar. Fólk vildi þessa stefnu. Það var ekki endilega að klappa Corbyn sem einstaklingi né heldur að lýsa andstöðu við Theresu May. Umræðan eftir bresku kosningarnar er allt of hlaðin af því að persónurnar hafi skipt öllu máli en ekki málefnin. Það gerði Corbyn hins vegar erfitt fyrir hvað samþingsmenn hans úr þingflokki Verkamannaflokksins töluðu margir illa um hann. Þegar þetta er haft í huga verður þeim mun ljósara að málefnin skiptu máli; þess vegna vildi unga fólkið styðja Verkamannaflokkinn.“

Svavar heldur áfram: „Innviðir samfélagsins þar eins og hér verða stöðugt veikari og má segja að lögreglu-umræðan við hryðjuverkin hafi afhjúpað veikleika innviðanna. Þetta er skrifað til þess að minna á – sem allir eða flestir muna – að málefnin eru úrslitaatriði. Róttæk vinstri stefna verkamannaflokksins vann sigurinn.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: