- Advertisement -

RÚV-málið: Kári ráðleggur Einari að segja upp áður en hann verður rekinn

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar skrifar:

Opið bréf til Einars Þorsteinssonar blaðamanns hjá RUV

Það er manni stundum erfitt að hemja sig, látið mig vita það. Það er sérstaklega erfitt þegar mann langar til þess að virðast gáfaður eða kúl eða hvort tveggja. Þá fara hlutirnir gjarnan norður og niður. Ég er sjálfur sífellt að lenda í þessu. Einar, ég held að það sé nákvæmlega þetta sem henti þig í kosningasjónvarpinu á föstudaginn þegar þú hjólaðir í hana Sönnu. Þess utan gleymdirðu boðorðinu hans Clint Eastwood, að maður verður að þekkja takmörk sín. Þegar maður gerir það velur maður sér andstæðing við hæfi en ekki einhvern sem flengir mann í beinni útsendingu.

Í þessum samskiptum þínum við Sönnu urðu þér á nokkur mistök. Í fyrsta lagi að gefa það í skyn að það væri óeðlilegt að launafólk treysti Sósíalistaflokknum af því að Gunnar Smári væri formaður hans, sem hann er ekki. Í annan stað að það væri ekki hægt að treysta flokknum af því Gunnar Smári hefði stofnað hann. Hann var bara einn af mörgum sem stofnaði hann. Í þriðja lagi gafstu það í skyn að Sanna væri ekki leiðtogi Sósíalistaflokksins í kosningunum, sem er hreinn dónaskapur við þann skelegga stjórnmálamann sem hún er og lyktar af kvenfyrirlitningu. Í fjórða lagi staðhæfðir þú að Gunnar Smári hafi svikið launafólk oftar en einu sinni, sem er óásættanleg ásökun í beinni útsendingu þar sem honum gafst ekki tækifæri til þess að svara fyrir hana. Í fimmta lagi, þegar þarna var komið sögu og þú varst farinn að velja úr einn stjórnmálaflokk, þar sem í leiðtogahópnum er maður sem hefur lent í því að fyrirtækið hans fór á hausinn, bar þér skylda til þess að láta áhorfendur vita að þú varst einu sinni formaður Týs, félags ungra Sjálfstæðismanna í Kópavogi. Vitneskjan um það var nauðsynleg til þess að áhorfendur hefðu tækifæri til þess að mynda
sér skynsamlega skoðun á því hvers vegna þú beindir ekki máli þínu að svipuðum sögum annarra sem stóðu fyrir framan þig og höfðu lent í því að fyrirtæki sem þeir komu að lentu í óleysanlegum vanda.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er ljóst að í samskiptum þínum við Sönnu braustu allar siðareglur heilbrigðrar blaðamennsku, jafnt skrifaðar sem óskrifaðar. Hvernig væri réttast að þú brigðist við því? Menn í þinni stétt hneikslast oft á því að íslenskir ráðherrar skuli aldrei segja af sér þegar þeim verður þannig á í messunni að kollegar þeirra í útlöndum myndu gera slíkt í hvelli. Eitt er víst að blaðamaður við erlenda sjónvarpsstöð sem gerðist uppvís að svona ósóma myndi flýta sér að segja upp þannig að hann yrði ekki rekinn áður. Sem sagt, nú hefur þú tækifæri til þess að sýna okkur hinum hvernig raunverulegir karlmenn haga sér.

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: