- Advertisement -

Sakar Útlendingastofnun um lygi

„Ég er hér kominn, frú forseti, til að segja að þetta er lygi. Það er lygi hjá Útlendingastofnun að allsherjar- og menntamálanefnd hafi samþykkt það verklag sem hún lagði fram hér 2018. Við gerðum það aldrei. Ekki einn einasti þingmaður, hvorki stjórnar né stjórnarandstöðu á þeim tíma, samþykkti að Útlendingastofnun myndi hunsa lögboðið verkefni sitt gagnvart ríkisborgararétti. Hún heldur því fram, fær það ekki samþykkt. Gerir þetta samt svona. Hvað er það, frú forseti, annað en gríðarleg vanvirðing við Alþingi?“

Það var Píratinn, Andrés Ingi Jónsson, sem þannig talaði á Alþingi í dag.

Fyrr sagði hann: „Mér rennur blóðið til skyldunnar að tjá mig um afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsóknum um ríkisborgararétt til Alþingis vegna þess að ég sat í allsherjar- og menntamálanefnd síðustu tvö kjörtímabil. Þá reyndi stofnunin með liðsinni ráðuneytisins ítrekað að breyta verklagi; með góðu eða illu skyldi breyta verklagi þannig að hún þyrfti ekki að standa í því að afgreiða jafn margar umsóknir til Alþingis og raun bar vitni.

Nú háttaði svo til við upphaf þessa kjörtímabils að nýliðar skipuðu allsherjar- og menntamálanefnd að mestu leyti. Þeim var talin trú um að orðið hefði sammæli á síðasta kjörtímabili um breytt verklag, það verklag sem stofnunin er núna einhliða búin að ákveða að beita.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: