- Advertisement -

Samherjarnir Katrín og Brynjar Níelsson

Katrín treystir sér greinilega ekki til að ræða efnisatriði málsins.

Sigurjón Þórðarson skrifar:

Umræðan um viðskiptahætti Samherja í gegnum skúffufélög og tilraunir til þess að kæfa hana niður með ófrægingaherferð á hendur blaðamönnum á aðeins eftir að þyngjast. Ekki er það vegna þess að von sé á nýrri bók um málið frá Ólínu Þorvarðardóttur um atvinnuþvinganir í háskólasamfélaginu í boði stórfyrirtækja eða álíka skrif, heldur miklu frekar að ástand mála hér er farið að vekja athygli og umræðu langt út fyrir landsteinana.

Skynsamlegast væri fyrir ábyrga aðila í sjávarútvegi og stjórnmálum að fjarlægjast þessa neikvæðu umræðu og boða jákvæðar breytingar gagnsæis, sanngirnis og sátta í stað þess að sökkva endanlega orðspori greinarinnar og Íslands á alþjóðavettvangi.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Brynjari Níelssyni, dytti í hug að skilyrða úthlutun listamannalauna til Bubba með beinum hætti við afkomu einstaka fyrirtækja.
Myndin er fengin af Twitter.

Á Íslandi má sjá skýr merki þess að fleiri stjórnmálamenn og málsmetandi aðilar séu opinskátt farnir að taka afstöðu gegn tuddagangi og einelti, í garð þeirra blaðamanna, sem leyfa sér að fjalla með gagnrýnum hætti um Samherja.

Í þinginu varpaði Þorgerður Katrín þeirri spurningu fram hvort að forsætisráðherra væri sammála seðlabankastjóra um að landinu væri að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum. Í stað þess að forsætisráðherra þjóðarinnar tæki fyrirspurn formanns Viðreisnar í þinginu fagnandi, til þess að ræða m.a. Samherjamálið af hreinskilni, þá gerði hún sitt ítrasta til þess að drepa málum á dreif. Æfingar forsætisráðherra voru aumkunarverðar, en þær fólust m.a. í því að skammast í blaðamönnum Stundarinnar fyrir að spyrja ekki réttu spurninganna og þess vegna áttaði hún sig ekki á því viðtali sem þorri þjóðarinnar skildi. Það gerði allavega eitt ástsælasta söngvaskáld þjóðarinnar Bubbi, sem er bæði les- og skrifblindur.

Bubbi lýsti því yfir að hann hefði verið varaður sérstaklega við því að taka upp vörn fyrir Helga Seljan og gagnrýna Samherja.

Einhverra hluta vegna þá bjóst ég allt eins við því að mögulega yrði að mestu skrúfað tímabundið niður í Bubba á K100 og dregið úr spilun laga hans á Bylgjunni. Aldrei átti ég hins vegar von á því að þingmaður á Alþingi Íslendinga Brynjari Níelssyni, dytti í hug að skilyrða úthlutun listamannalauna til Bubba með beinum hætti við afkomu einstaka fyrirtækja.

Samherjarnir Katrín og Brynjar, staðfesta sjálf að inntakið í skrifum Bubba um annars vegar þögn og vandræðagang þingmanna til að ræða Samherjamálið og hins vegar þvinganir í garð þeirra sem leyfa sér það. Forsætisráðherra treystir sér greinilega ekki til að ræða efnisatriði málsins og skrif Brynjars afhjúpa að þvinganir geti náð til hinna ólíklegustu þátta ef Bubbi haldi sig ekki á þægur á mottunni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: