- Advertisement -

Snillingarnir Guðlaugur og Steingrímur

Fyrir bráðum tíu árum mætti Steingrímur J. Sigfússon til mín í þáttinn Sprengisand. Steingrímur var þá fjármálaráðherra. Fyrir þáttinn töluðum við um eitt og annað. Svo kom að hann sagði mér að einhver hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefði hrósað Steingrími mikið fyrir hvernig hefði tiltekist á Íslandi eftir hrun. Steingrímur sagði að hann hefði verið spurður hvort hann gæti ekki tekið að sér Grikklandi. Sem var í miklu vanda þá eins og nú.

Ég tók þetta ekki alvarlega. Meðan hann grobbaðist var ég viss um, og er enn, að fulltrúi eða fulltrúar AGS, hafi verið að stríða Steingrími. Enda kom ekkert formlegt boð eða nokkuð þess háttar. Auðvitað var þetta bara djókur.

Ég gerði ekkert með þetta svo hann bankaði upp á víðar til að koma þessari fjarstæðu í fréttir. Nú hefur annar eins stigið fram. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir viðbrögð Íslendinga við veiru fjandanum vekja athygli um heim allan og aðrar þjóðir ættu að fara að ráðum íslenskra stjórnmála.

Þetta er svo mikið lifandis bull að það nær varla máli. Ísland er jú einu sinni eyja í norðurhöfum og á ekki landamæri að nokkru öðru ríki. Hér er hægt að mæla og meta hvern og einn þann sem kemur til landsins. Einfaldara og viðráðanlegra en nánast alls staðar annars staðar. Og er bara ekki sambærilegt. Þá er alls gert lítið úr fádæma góðu starfi Þórólfs, Ölmu og Víðis.

Það breytir því ekki að Guðlaugur skoðar greinilega eigin spegilmynd og hnyklar þar vöðvana viss um að vera einstakur á heimsvísu. Sem hann auðvitað er ekki.

Guðlaugur Þór og Katrín Jakobsdóttir hvöttu í gær Íslendinga í útlöndum til að koma heim. Það er sem þau hafi ekki fattað að það er ekki svo auðvelt. Það er búið að loka mörgum landamærum og framboð flugferða hefur sjaldan verið takmarkaðra.

Íslenskir ráðamenn láta ekki að sér hæða.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: