- Advertisement -

Snúið að skýra eðli Íslendinga – fyrir útlendingum

Við erum best í öllu.
Við erum spilltust af Norðurlöndunum.

Súsanna Svavarsdóttir skrifar:

Það getur stundum verið snúið að útskýra eðli Íslendinga fyrir útlendingum. Það eru sextán heimili í sundinu þar sem senjora Alba býr, allt Bretar og írskir Írar nema hún og hennar, norsku hjónin skáhallt á móti og svo framliðnu Finnarnir við hliðina (sem nota bene eru búnir að fá sér kött).

Bretarnir í götunni hafa svo mikið að gera við að skammast sín fyrir rugludallana í sinni ríkisstjórn að þeir ná varla að þrífast, verða grárri og guggnari með hverri sneypuförinni sem TM skreppur með tilþrifum, blikkandi ljósum, herþyrlum og tröllslegum hálsfestum yfir sundið til að snúa niður karlana í þessari andskotans Evrópu sem hún vill ekki eiga heima í.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Senjoran reynir að bera í bætifláka fyrir TM og segja: Hún er nú ekki aldeilis af baki dottin. Bretarnir svara: Nei, því miður.

Írarnir standa á sínum veröndum með hendur krosslagðar á brjósti og horfa af fyrirlitningu á allt og ekki neitt. Senjoran reynir að bera í bætifláka fyrir TM og segja: Hún er nú ekki aldeilis af baki dottin. Bretarnir svara: Nei, því miður. Og afþví að þetta er viðkvæmt mál í sundinu, sérstaklega eftir að Jean og Donna (dóttir Pat og Tonys við hliðina var sagt upp húsnæðinu á móti senjorunni af írsku konunni sem á það og ætlaði að selja það þangað til í dag að hún hætti við og þau flutt og allt) er farið að tala um eitthvað annað – eins og til dæmis Ísland. Það sæluríki.

Það færist einhver draumkenndur svipur yfir andlit þessa fólks þegar það segir Ísland og vill fá að vita allt um það svona rétt eins og það vill fá að vita allt um himnaríki og rörið þangað frá þeim sem hafa dáið í einhverjar mínútur en hætt við og snúið aftur til lífsins. Þetta er fólk sem er búið að steingleyma því að við rændum bankana þeirra og stungum af með heilu lífeyrissjóðina, jusum svo yfir það ösku úr Eyjafjallajökli sem setti fjölda flugfélaga í þeirra landi á hliðina og erum ennþá á sama hryðjuverkalista þeirra og Ósama karlinn og hans pótintátar. Og auðvitað er senjoran ekkert að svekkja þetta mædda fólk á slæmum fréttum oní allt þetta brexitsvekkelsi.

Hún segir því bara góðar fréttir. Fréttir af sigrum. Við erum best í öllu. Við erum spilltust af Norðurlöndunum. Við erum með hæstu húsnæðisvexti á Norðurlöndum, 7,6 prósent og klínum svo verðbótum oná. Noregur kemur næst, með skitin 1,9 prósent – kemst ekki með tærnar í hlaupafæri við hælana á okkur, ekki einu sinni þótt þeir séu varanlegir heimsmeistarar í langhlaupum á skíðum.

Við erum með mesta vinnuálag á Norðurlöndum afþvi við tökum vinnuna heim með okkur á kvöldin og um helgar til að standa undir öllum þessum prósentum til að eignast eigið húsnæði (sem við eignumst auðvitað aldrei afþví svona reikningsformúla gengur aldrei upp – en senjoran er svosum ekkert að bæta því við) og borga alla brúsana sem spilltu bubbarnir þurfa að fá svigrúm til að sullast í.

Við erum svo brjálæðislega dugleg að við nennum ekki að hlusta á væl í fólki sem reynir að koma því á framfæri hvað það á um sárt að binda.

Við erum eina þjóðin sem vitað er um sem hefur komið sér upp stofnun til að sjá um að stela frá öryrkjum og öldruðum og öllum sem hún getur fundið til að knésetja.

Við erum eina þjóðin sem vitað er um sem hefur komið sér upp stofnun til að sjá um að stela frá öryrkjum og öldruðum og öllum sem hún getur fundið til að knésetja. Og flóttamenn og hælisleitendur eru ekki vandamál hjá okkur.

Við sprautum bara piparúða á þá og stingum þeim í grjótið ef þeir ætla eitthvað að fara að ybba gogg, vopnaðir pappakössum.

Við erum með mottó: Hver er sinnar gæfu smiður – svo smíðum við og smíðum og það myndi aldrei hvarfla að okkur að staldra við til að spyrja hvernig við skilgreinum gæfu. En senjoran er ekkert að segja Bretunum það. Hún er ekki heldur að bæta því við að Ísland sé í rauninni ríkisrekið skuldafangelsi. Nah, hún bætir því þá heldur við að við höfum átt fjórar eða fimm alheimsfegurðardrottningar, Nóbelsskáld og heimsbókmenntir frá þrettándu öld.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: