- Advertisement -

Sönn íslensk sakamál: Hefur þú kjark til að drepa mig

- hrottalegt morð framið í Reykjavík

Aðfaranótt 1. apríl árið 1979 kom Hilmar Jónsson heim til sín ásamt vinkonu sinni Ásdísi Sigurðardóttur eftir að þau höfðu verið á dansleik á Hótel Borg. Þau voru bæði við skál. Hjónin Sigurður Sigurðsson og Ólöf Gunnarsdóttir bjuggu á sömu hæð og Hilmar að Hverfisgötu í Reykjavík en þau höfðu verið að skemmta sér á Hótel Esju sama kvöld. Ólöf brá sér á sameiginlega snyrtingu sem var í húsinu. Hún hitti Hilmar á ganginum og þau tóku tal saman. Þá kom Sigurður fram og ásakaði þau um að hafa átt stefnumót á snyrtingunni. Eftir nokkur orðaskipti fór Ólöf inn í búð þeirra hjóna og tók á sig náðir. Hið sama gerði Sigurður skömmu síðar.

Hilmar og Ásdís sváfu ekki um nóttina. Um morguninn settist Hilmar að drykkju með Sigurði og þegar búið var að tæma eina vermóðsflösku fór Hilmar og sótti aðra. Þegar hér var komið sögu voru Hilmar og Sigurður orðnir vel drukknir og Ólöf sem hafði slegist í hópinn var talsvert ölvuð. Sigurður bar á konu sína að hún héldi fram hjá honum. Ólöf sagðist seinna svo frá að í rifrildi hefði hún sagt að hún gæti drepið Sigurð. Sigurður ýtti þá að henni hníf sem lá á sófaborðinu og sagði: „Gerðu það þá!“ Hún svaraði að það gæti hún aldrei gert. Hún gekk siðan út og fór til Ásdísar sem var í íbúð Hilmars.

„Gakktu alveg frá mér“

Eftir brottför hennar gekk Sigurður inn í eldhús en kom aftur, beindi orðum sínum að Hilmari, meðan hann horfði á hann einkennilegu augnaráði, og sagði: „En þú, ungi maður, hefur þú kjark til að drepa mig?“ Hilmar sagði seinna að hann hefði ekki vitað fyrr en hann stóð í eldhúsinu með hnífinn í hendinni. Hann stakk hnífnum í kvið Sigurðar og risti upp úr. Sigurður laut fram og féll síðan á gólfið. Þar sem hann lá í sárum sínum sagði hann: „Þetta er búið, gakktu alveg frá mér“. Við þessi orð beygði Hilmar sig niður og skar Sigurð á háls.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar Hilmar hafði áttað sig á því hvað hann hafði gert var fyrsta verk hans að þvo sér um hendurnar. Að því loknu gekk hann yfir í íbúð sína og sagði Ásdísi og Ólöfu frá verknaðinum. Þær gengu með honum yfir í íbúð Sigurðar og sáu líkið á eldhúsgólfinu. Hilmar og Ólöf ræddu um það að koma likinu í bíl Hilmars og losa sig þannig við það. Ásdís taldi hins vegar best að segja sannleikann. Niðurstaðan varð sú að Hilmar fór yfir í næsta hús og hringdi þaðan því enginn sími var í húsinu. Hann hringdi í þrjá einstaklinga sér nákomna og sagði þeim hvað hann hefði gert. Skömmu síðar hringdi hann aftur í tvo vini sína. Annar þeirra lét lögreglu vita. Hún fór þegar á vettvang og Hilmar viðurkenndi að hafa orðið Sigurði að bana.

Geðrannsókn og dómur

Hilmar var sendur í geðrannsókn. í niðurstöðum hennar sagði meðal annars að Hilmar væri ekki haldinn geðveiki heldur persónuleikatruflun sem mætti meðal annars rekja til rótleysis í bernsku sem hafði leitt til lélegs námsárangurs: „Síðan hefur Hilmar alið með sér stöðuga minnimáttarkennd gagnvart öllu námi en í eðli sínu er hann framagjarn og hefur vissa þörf fyrir að skara fram úr… Viðbrögð Hilmars hinn 1. apríl síðastliðinn verða að mörgu leyti skiljanleg ef haft er í huga hversu mikið hann þarf að sýnast, duga og þora að gera hluti til þess að bæla niður minnimáttarkennd sína. Dómgreind hans var ennfremur skert af svefnleysi og drykkju. Setning sú, sem samkvæmt málsskjölum virðist hafa orðið kveikjan að viðbrögðum hans, fól í sér ásökun um ódugnað og heigulshátt. Innihald ræðunnar var áskorun, hann varð að sýnast og geta. Ætla má að viðbrögð hans hefðu orðið önnur ef skipun eða beiðni hefði falist íinnihaldi ræðunnar“.

Í sakadómi Reykjavíkur var Hilmar dæmdur í sextán ára fangelsi og staðfesti Hæstiréttur dóminn.

NÖFNUM Í GREININNI HEFUR VERIÐ BREYTT


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: