- Advertisement -

Sorgardagur í íslenskri verkalýðsbaráttu

Hvað kemur næst?  Munu útgerðarmenn heimta að geta ráðið kínverska farandverkamenn á kínverskum launum á fiskveiðiflotann. 

Gera má ráð fyrir að öll áhöfnin verði látin taka pokann sinn.

„Íslensk stjórnvöld hafa gefist upp fyrir þrýstingi íslenskra kaupskipaútgerða og ætla að gefa grænt ljós á félagsleg undirboð þeirra.  Í staðinn fyrir að standa fast á sínu og krefja að íslensk fyrirtæki greiði samkvæmt íslenskum launatöxtum, þá eiga launataxtar í Kína og á Filippseyjum að ráða því hvaða laun skipverjar fá, því varla verða margir íslenskir farmenn á „íslenskum“ kaupskipum ef frumvarp um „íslenska alþjóðlega skipaskrá“ Sigurðar Inga verður að lögum.  Og verið viss um að þetta er bara byrjunin,“ skrifar Marinó G. Njálsson á Facebooksíðu sína.

„Þetta er sorgardagur í íslenskri verkalýðsbaráttu.  Vonandi koma hávær mótmæli frá ASÍ, Sjómannasambandinu og öðru hagsmunasamtökum sem ættu að láta sig félagsleg undirboð varða.  Nýlega kom til landsins súrálsskip, þar sem skipverjar voru frá Kína.  Margir þeirra voru sárveikir, en ekkert var gert til að veita þeim læknishjálp, fyrr en komið var til Íslands.  Gera má ráð fyrir að öll áhöfnin verði látin taka pokann sinn við fyrsta tækifæri fyrir að valda útgerðinni þeim skaða, að skipið var kyrrsett á Íslandi í 2 vikur eða svo.  Að ég tali nú ekki um að dirfast að smitast af Covid.  Heilsa þeirra skipti engu máli og meira segja skipstjórinn átti ekki annarra kosta völ, en að mæta sársjúkur á vakt.

Það er virkilega ömurlegt að vita til þess, að íslensk stjórnvöld létu undan þrýstingi frá kaupskipaútgerðum.

Félagsleg undirboð af þessu tagi munu koma í bakið á þjóðum heims og sérstaklega jafn fámennri þjóð og Íslendingar eru.  Haldi menn að þau stoppi við landbúnað og kaupskipaútgerð, þá er það mikill misskilningur.  Fjórða iðnbyltingin er hafin og með henni verður hægt að færa störf hvert sem er í heiminum.  Tungumálið verður engin hindrun, því Google-frænka er ekki lengi að snara á milli íslensku og kínversku og til baka aftur.  Tæknin er búin að vera til í yfir 25 ár, það er hins vegar ekki fyrr en nú, sem hún er aðgengileg öllum, þó enn skorti á gæðin.  (Í gær var ég að leita á netinu eftir styrkingaræfingum fyrir hné og meiri hluti leitarniðurstaðna voru erlendar vefsíður með texta þýddum á „íslensku“ af Google Translate.)

Hvað kemur næst?  Munu útgerðarmenn heimta að geta ráðið kínverska farandverkamenn á kínverskum launum á fiskveiðiflotann.  Icelandair vill endilega losna við íslenska flugliða, enda er fólkið á mannsæmandi launum.  Varla er hægt að mismuna fyrirtækjum og banna Icelandair það sem Eimskip og Samskip fá að gera. Ef menn halda að íslenskt tölvufólk sé óhult, þá er það mikill misskilningur, vegna þess að það indverska er alveg jafnhæft (ef ekki hæfara) og er alsælt með 10% af launum íslenska forritarans.

Það er virkilega ömurlegt að vita til þess, að íslensk stjórnvöld létu undan þrýstingi frá kaupskipaútgerðum, hverra eigendur kunna ekki aura sinna tal og eru að stórum hluta ekki einu sinni skattgreiðendur á Íslandi.  Hverra hagsmuna eru stjórnvöld að gæta?  A.m.k. ekki íslenskra og allra síst íslenskra farmanna, sem fækkaði líklegast um einn þegar facebook vinur minn, Jóhann Símonar, varð sjötugur í gær.

Þetta er gjörsamlega misskilin góðvild hjá stjórnvöldum.

Þetta er gjörsamlega misskilin góðvild hjá stjórnvöldum og er bara fyrsta skref í að flytja tugi þúsunda íslenskra starfa úr landi og fjölga um jafn marga á atvinnuleysisskrá. Skora ég á Sigurð Inga að draga það ákvæði frumvarpsins, að greiða skuli laun samkvæmt heimalandi skipverjans, umsvifalaust til baka.  Það er minni skaði fólgin í því að skipin séu skráð undir hentifána, en að miðað sé við laun í heimalandi skipverja.  Seinna atriðið er efni í stóra snjóhengju sem brotna mun yfir íslenskt samfélag fyrr eða síðar.

Merkilegt er síðan, að meðfylgjandi frétt mbl.is er undir fréttaflokknum 200 mílur, en hann fjallar almennt um fiskveiðar og -vinnslu.  Ætli það sé vegna þess að blaðamenn átta sig á því sama og ég?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: