- Advertisement -

Spilltir stjórnmálamenn hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig

Þór Saari skrifar:

Eins og sést í þessum upplýsingum frá formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þá mætir þingmaðurinn Brynjar Níelsson ekki á fundi nefndarinnar nema endrum og eins. Hann er því ekki inni í þeim málum sem nefndin fjallar um en hefur engu að síður vaðið um fjölmiðla og tjáð sig um sömu mál. Það er með Alþingi eins og aðra vinnustaði að sumir eru latir en flestir sinna þó vinnunni af samviskusemi. Gallinn við Alþingi er að ekki er hægt að reka þá lötu og þótt þingflokkurinn þeirra (eða meirihluti Alþingis) geti skipt þeim út úr nefnd virðist í þessu tilfelli sem þingflokki  Sjálfstæðisflokksins sé slétt sama þótt hann sé ekki upplýstur um starfið í nefndinni.

Það er þessi „heilagleiki“ Alþingis sem er vandamálið, þótt að þingið eða einstakir flokkar eða þingmenn bregðist algerlega hlutverki sínu er ekkert sem almenningur getur gert í málinu, nema þá eins og í Búsáhaldabyltingunni, mætt á Austurvöll og kastað drasli í Alþingishúsið. Þess vegna er nýja stjórnarskráin svo mikilvæg því hún gefur almenningi tækifæri á með söfnun undirskrifta að leggja mál fyrir þingið og að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Það er þetta aðhald sem pólitíska yfirstéttin á þingi hatar og vill ekki. Þangað til við fáum í gegn nýja stjórnarskrá munum við búa við spillt Alþingi sem sinnir ekki hlutverki sínu af kostgæfni, spillta stjórnmálastétt sem hugsar fyrst og fremst um sjálfa sig, og lata þingmenn.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: